38 milljörðum eytt í að endurheimta titilinn undanfarin 6 ár

Ribery og Schweinsteiger fagna marki Bayern München í meistaradeild Evrópu.
Ribery og Schweinsteiger fagna marki Bayern München í meistaradeild Evrópu. mbl.is/afp

Það verður seint sagt að þýska stórveldið FC Bayern hafi húmor fyrir því að vinna ekki Þýskalandsmeistaratitilinn. Félagið hefur nú þurft að horfa á eftir skildinum margfræga til Dortmund undanfarin tvö tímabil og virðist eins og alltaf staðráðið í að endurheimta hann.

Það sannaðist með kaupum félagsins á spænska miðverðinum Javi Martínez frá Athletic Bilbao í gær en Bayern borgar fyrir hann 40 milljónir punda. Þar með er Martínez dýrasti leikmaður í sögu þýsku knattspyrnunnar.

Undanfarin sex tímabil hefur Bayern „aðeins“ unnið þýsku deildina tvisvar sinnum sem þykir ekki nægilega gott á þeim bænum. Bayern hefur á þessum tíma eytt 250 milljónum evra eða 38 milljörðum króna í að endurheimta titilinn í hvert skipti sem það hefur ekki unnið.

Lítum aðeins yfir síðustu sex ár. Sumarið 2007 fagnaði Stuttgart Þýskalandsmeistaratitlinum. FC Bayern svaraði með því að eyða 78 milljónum evra í nýja leikmenn eða sem svarar 12 milljörðum króna. Þetta sumar keypti liðið menn á borð við Franck Ribery, Miroslav Klose og Luca Toni.

Liðstyrkurinn nægði til að endurheimta titilinn og urðu Bæjarar þá mun rólegri á félagaskiptamarkaðnum sumarið 2008. Félagið eyddi ekki krónu heldur fékk nokkra menn á frjálsri sölu. Í maí árið eftir horfði Bayern á eftir titlinum til Wolfsburg.

Þá misstu Bæjarar sig aftur og eyddu 67,5, milljónum evra, 10,3 milljörðum króna, í leikmenn á borð við Arjen Robben, Mario Gomez og Anatoliy Timoshchuk. Titillinn kom aftur til Bæjaralands og nægði þá liðinu að kaupa Luiz Gustavo á 15 milljónir evra sumarið 2010.

Nú hefur Dortmund unnið tvö síðustu tímabil þrátt fyrir mikla eyðslu Bayern. Bayern eyddi 39,5 milljónum evra síðasta sumar og er búið að eyða 65,5 milljónum í ár með tilkomu Javí Martínez. Allt til að endurheimta titilinn sem Bæjurum finnst þeir eiga. tomas@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert