Ronaldo: Dómarinn ræður ekki við svona leik

Sergio Ramos fær að líta rauða spjaldið.
Sergio Ramos fær að líta rauða spjaldið. AFP

Cristiano Ronaldo og Sergio Ramos, leikmenn Real Madrid, voru sammála um það að dómarinn Alberto Undiano hefði staðið sig afskaplega illa í El Clásico-leiknum í kvöld sem Barcelona vann 4:3.

Ramos var rekinn af velli á 63. mínútu fyrir meint brot á Neymar innan teigs. Lionel Messi jafnaði svo metin úr vítaspyrnu og hann skoraði svo sigurmark úr annarri vítaspyrnu seint í leiknum, þegar Undiano taldi að brotið hefði verið á Andrési Iniesta. Undiano hafði áður gefið Cristiano Ronaldo vítaspyrnu vegna brots sem virtist eiga sér stað rétt utan vítateigs. Óhætt er að segja að vítaspyrnudómarnir hafi allir verið umdeilanlegir.

„Þessi dómari ræður ekki við leik af þessari stærðargráðu. Við þurfum dómara sem er rólegri. Hann var mjög lélegur,“ sagði Ronaldo við fréttamenn eftir leikinn.

Skil betur hvernig hlutirnir virka hérna

„Ég er búinn að vera hérna í fimm ár núna og ég er smám saman að átta mig á því hvernig hlutirnir virka hérna. Frá því að ég kom hefur dómarinn aldrei verið hliðhollur Madrid,“ sagði Ronaldo.

Sergio Ramos fékk enn eitt rauða spjaldið sitt á ferlinum en hann segir Neymar hafa gert sig sekan um leikaraskap.

Þetta var ákveðið fyrirfram

„Þetta er alltaf eins. Ég snerti ekki Neymar. En það þýðir ekkert að tala um það, það breytir engu. Það sáu allir hvað gerðist. Við gátum fengið eitthvað út úr leiknum en fengum ekkert. Það er ekki hægt að ráða við suma hluti. Þetta var ákveðið fyrirfram,“ sagði Ramos, og útskýrði hvað gerðist þegar dæmt var á hann.

„Ég stoppaði því ég vildi frekar að þeir jöfnuðu í 3:3 en að þeir fengju víti og ég yrði sendur af velli,“ sagði Ramos.

Cristiano Ronaldo segir Madridinga aldrei njóta velvildar dómarans.
Cristiano Ronaldo segir Madridinga aldrei njóta velvildar dómarans. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert