Stefán vann Mikael í úrslitaleiknum

Stefán Teitur Þórðarson er danskur bikarmeistari.
Stefán Teitur Þórðarson er danskur bikarmeistari. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Stefán Teitur Þórðarson, landsliðsmaður í knattspyrnu, er danskur bikarmeistari með Silkeborg en liðið sigraði AGF frá Árósum, 1:0, í úrslitaleik keppninnar á Parken í Kaupmannahöfn í dag.

Oliver Sonne skoraði markið sem réði úrslitum á 38. mínútu leiksins. Stefán skoraði laglegt skallamark á 81. mínútu en markið var dæmt af eftir ítarlega skoðun myndbandadómara, þar sem samherji hans reyndist rangstæður í aðdraganda marksins.

Stefán lék allan leikinn með Silkeborg og Mikael Anderson, félagi hans úr íslenska landsliðinu, lék allan leikinn með AGF.

Þetta er í annað skipti sem Silkeborg verður bikarmeistari en áður vann liðið keppnina árið 2001. Með þessu tryggði félagið sér Evrópusæti á næsta tímabili en liðið er í sjötta sæti dönsku úrvalsdeildarinnar, sex stigum á eftir AGF sem er í fimmta sætinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert