Breiðablik 1:1 KR, Víkingur 2:1 Fram

Sinisa Valdimar Kekic, Víkingi, er búinn að skora tvívegis gegn …
Sinisa Valdimar Kekic, Víkingi, er búinn að skora tvívegis gegn Fram. Rúnar Kristinsson sem sést í baksýn, lagði upp mark KR gegn Breiðabliki. mbl.is/Árni

Víkingar lönduðu sínum fyrsta sigri í Landsbankadeild karla síðan í lok maí er þeir sigruðu Fram í 11. umferð í kvöld 2:1. Á sama tíma gerðu Breiðablik og KR 1:1 jafntefli í Kópavoginum. Er þetta fimmta jafntefli Blika í deildinni og fjórða jafntefli KR-inga. Með sigrinum komast Víkingar í 7. sæti með 12 stig og HK færist niður í 8. með 11 stig. Fram er stigi á undan KR í 9. sæti með 8 stig. Breiðablik stendur í stað í 6. sæti deildarinnar með 14 stig.

Breiðablik 1:1 KR

0:1 Kristinn Magnússon kom KR yfir á 32. mínútu. Kristinn skallaði knöttinn aftur fyrir sig og í netið. Markið kom upp úr hornspyrnu Rúnars Kristinssonar. Blikar hafa verið meira með knöttinn en KR-ingar hafa skapað sér fleiri færi.

Flautað hefur verið til leikhlés á Kópavogsvelli og KR hefur yfir 1:0. Stefán Logi Magnússon markvörður KR hefur varið vel í marki Vesturbæinga en undir lok hálfleiksins var björguðu Blikar á línu frá Gunnlaugi Jónssyni.

1:1 Nenad Zivanovic hefur jafnað metin í Kópavoginum á 71. mínútu. Arnór Sveinn Aðalsteinsson skallaði boltann til Zivanovic sem skoraði af stuttu færi.

Stefán Logi Magnússon kom KR-ingum til bjargar á lokamínútunum með góðri markvörslu en þá lögðu Blikar mikið í sölurnar til þess að landa öllunum stigunum. Á 85. mínútu varði Stefán Logi í tvígang í sömu sókninni.

Víkingur 2:1 Fram

1:0 Sinisa Valdimar Kekic er búinn að koma Víkingum í 1:0 með marki úr vítaspyrnu á 34. mínútu. Hannes Halldórsson markvörður Fram braut á Gunnari Kristjánssyni rétt innan vítateigs að mati dómarans. Að öðru leyti hefur lítið verið um marktækifæri í leiknum.

2:0 Sinisa Valdimar Kekic er búinn að bæta öðru marki við fyrir Víking gegn Fram. Kekic skallaði knöttinn í netið á 42. mínútu eftir fallega sendingu Gunnars Kristjánssonar. Kekic hefur nú skorað sjö mörk í deildinni og er næst markahæstur, einu marki á eftir Helga Sigurðssyni.

2:1 Jónas Grani Garðarson er búinn að minnka muninn fyrir Fram á 45. mínútu. Markið kom eftir aukaspyrnu Igors Pesic af rúmlega 35 metra færi, en Jónas Grani breytti stefnu boltans og skallaði hann yfir Bjarna Þórð Halldórsson markvörð.

Síðari hálfleikur hefur verið frekar rólegur hvað marktækifæri varðar. Nú þegar liðlega korter er eftir af leiknum eru Framarar heldur að sækja í sig veðrið en hafa ekki skapað sér afgerandi marktækifæri.

Undir lok leiksins settu Framarar aukna pressu á Víkinga en heimamenn stóðust álagið og lönduðu sigri.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert