Steinunn: Öskrandi brjálaðar í næsta leik

Steinunn Sigurgeirsdóttir, aðstoðarfyrirliði íslenska kvennalandsliðsins í íshokkíi, var svekkt eftir 5:2 tapið gegn Slóveníu í öðrum leik liðsins í 2. deild heimsmeistaramótsins, en fyrirfram var slóvenska liðið talið það sterkasta.

„Við settum okkur það markmið að taka þennan leik og vorum óhræddar við það þótt þær ættu að heita sterkasta liðið, það er ekkert gefið í þessu. Við lögðum alltaf upp með það að við yrðum mikið í varnarsvæðinu og við gerðum það vel. Það fór aðeins úrskeiðis í síðustu lotunni en við náðum marki í lokin og það var rosalega gott að fá þetta síðasta mark,“ sagði Steinunn við mbl.is en var engu að síður sátt við margt.

„Við héldum alltaf baráttunni og duttum aldrei niður þótt við fengjum á okkur þessi mörk. Við vorum svo nálægt því að setja hann oft en það kemur þá bara í næsta leik. Við fáum dag til að hvíla okkur á morgun en komum öskrandi brjálaðar í þann leik,“ sagði Steinunn, en næsti leikur liðsins er gegn Króatíu á fimmtudag. Nánar er rætt við hana í meðfylgjandi myndskeiði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert