Guðmundur sigraði í Tallahassee

Guðmundur Ágúst Kristjánsson.
Guðmundur Ágúst Kristjánsson. mbl.is/Eva Björk Ægisdóttir

Guðmundur Ágúst Kristjánsson tryggði sér sigur á Seminole Intercollegiate háskólamótinu sem lauk á Southwood vellinum í Tallahassee í Flórída í gærkvöld. Hann var með sjö högga forystu fyrir lokahringinn og lauk keppni þremur höggum á undan næsta manni.

Þetta er fyrsti sigur Guðmundar á háskólamóti en hann er á síðasta ári hjá liði East Tennessee State háskóla. Hann mætt mörgum af sterkstu kylfingum bandarísku háskólanna á mótinu. Lið Guðmundar hafnaði í öðru sætiá mótinu, á eftir Florida State.

Guðmundur jafnaði skólametið á fyrsta hring mótsins sem hann lék á 63 höggum, níu undir pari, en hann lék samtals á 17 höggum undir pari á mótinu.

„Þetta hefur verið frábær vika og það er góð tilfinning sem fylgir því að sigra á þessu móti. Ég púttaði vel á lokahringnum og setti niður langt pútt fyrir fugli á lokaholunni. Ég gerði mér ekki grein fyrir stöðunni þar sem að Jack Maguire var á undan mér í ráshóp. Ég einbeitt mér að því sem ég ætlaði að gera og slá höggin mín. Ég náði að bjarga góðum pörum á 15. og 16. Á lokaholunum var ég lánsamur að setja niður góð pútt sem skiptu miklu máli,“ sagði Guðmundur Ágúst í viðtali sem birt var á heimasíðu ETSU háskólaliðsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert