Frakkar leika til úrslita á HM

Daninn Nikkel Hansen reynir að kasta boltanum framhjá Nikola Karabatic …
Daninn Nikkel Hansen reynir að kasta boltanum framhjá Nikola Karabatic í undanúrslitaleik Frakka og Dana í dag. Reuters

Frakkar tryggðu sér sæti í úrslitum heimsmeistaramótsins í handknattleik með því að leggja Dani, 27:22, í undanúrslitaleik í Split í Króatíu. Þeir mæta annað hvort Króötum eða Pólverjum í úrslitaleik á sunnudag en það skýrsit síðar í kvöld þegar þjóðirnar hafa mæst í hinni viðureign undanúrslitanna.

Að undanskildum fyrsta stundarfjórðungi leiksins í dag sem var nokkuð  jafn þá höfðu Frakkar algjöra yfirburði. Þeir voru með fimm marka forskot í hálfleik, 16:11. Í síðari hálfleik náðu Frakkar mest níu marka forskoti, 24:15. Þeir gátu leyft sér að hægja verulega á leiknum síðustu tíu mínúturnar. Við það náðu Danir að minnka muninn en komust þó aldrei nær en fjórum mörkum, 24:20.

Hornamaðurinn Luc Abalo var sýnt rautt spjald á 54. mínútu þegar hann kastaði í andlit Niklas Landin. Abalo verður í leikbanni í úrslitaleiknum sem er talsvert áhyggjuefni fyrir Frakka enda er hann sterkasti hægri hornamaður liðsins.

Abalo var markahæstur Frakka með sjö mörk. Guillaume Gille skoraði fimm mörk og Michael Guigou fjögur. Klavs Bruun Jörgensen skoraði flest mörk danska liðsins, fimm. Michael Knudsen og Mikkel Hansen gerðu fjögur mörk hvor.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert