Grótta leikur til úrslita í bikarnum

Leikmenn Gróttu fagna sigrinum eftir leikinn.
Leikmenn Gróttu fagna sigrinum eftir leikinn. mbl.is/Guðmundur Karl

Grótta frá Seltjarnarnesi leikur til úrslita í bikarkeppni karla í handknattleik í fyrsta skipti eftir að hafa lagt Selfoss að velli, 31:30, í framlengdum leik í undanúrslitum keppninnar á Selfossi í kvöld.

Selfyssingar voru nær sigri í venjulegum leiktíma en misstu þá niður tveggja marka forskot og Grótta knúði fram framlengingu, staðan 26:26. Selfoss náði aftur að komast tveimur mörkum yfir í framlengingunni en það voru síðan Seltirningar sem skoruðu tvö síðustu mörkin. Þeir mæta Val eða FH í úrslitaleik í Laugardalshöll 28. október en stórveldin mætast í Laugardalshöllinni á sunnudaginn klukkan 16.

Leiknum var lýst beint hér á mbl.is:


70. LEIKSLOK. Grótta komst yfir, 30:31, á lokamínútunni. Selfyssingar fengu á sig ruðning þegar 5 sekúndur voru eftir og þar með var Grótta með sigurinn í höndunum. Grótta fékk síðan vítakast á lokasekúndunni. Það tók smá stund að framkvæma það þar sem stuðningsmenn Gróttu streymdu inná gólfið til að fagna. Loks þegar búið var að rýma gólfið rétti leikmaður Gróttu markverði Selfyssinga  boltann í stað þess að taka vítakastið og síðan fögnuðu Seltirningar sigri.

68. Dramatíkin heldur áfram og Selfoss heldur forystunni, 30:29, þegar tvær mínútur eru eftir.

65. Fyrri hálfleik í framlengingu lokið og Selfoss yfir á ný, 29:28. Selfyssingar komust í 29:27 en Grótta minnkaði muninn. Spennan yfirþyrmandi.

62. Selfoss hóf framlenginguna á sláarskoti og í staðinn skoraði Zoltán Bragi Belánýi fyrir Gróttu, 26:27.

60. LEIKSLOK. Grótta jafnaði metin, 26:26, og hálf mínúta eftir. Selfyssingar fóru manni fleiri í síðustu sóknina en náðu ekki skoti, fengu á sig leiktöf í blálokin, og þar með er leikurinn framlengdur.

57. Þrjár mínútur eftir og Selfoss kominn með vænlega stöðu, 26:24. Á brattann að sækja fyrir Seltirninga.

54. Selfyssingar nýttu sér að vera manni fleiri og náðu forystunni, 24:23.

50. Tíu mínútur eftir og allt við það sama, staðan 23:23.

46. Allt í járnum áfram og staðan 22:22. Sebastian Alexandersson þjálfari Selfyssinga var að verja vítakast.

41. Grótta komst í 16:18 en Selfoss náði að jafna metin í 19:19. Leikurinn hefur tvívegis verið stöðvaður vegna meiðsla síðustu mínúturnar.

37. Grótta skoraði tvö fyrstu mörk seinni hálfleiks en Selfoss lagaði stöðuna, 16:17. Hlynur Morthens markvörður Gróttu byrjar seinni hálfleik vel, varði fjögur skot á fyrstu sex mínútunum, þar af eitt vítakast.

30. HÁLFLEIKUR Finnur Ingi Stefánsson jafnaði fyrir Gróttu, 15:15, þegar þrjár sekúndur voru eftir af fyrri hálfleik. Finnur er markahæstur hjá Gróttu ásamt hinum gamalreynda Zoltán Belánýi en þeir eru með 5 mörk hvor. Ragnar Jóhannsson er markahæstur Selfyssinga með 5 mörk.

29. Grótta hefur saxað á forskotið og staðan mínútu fyrir lok fyrri hálfleiks er 15:14 fyrir Selfoss.

25. Selfyssingar voru um skeið tveimur mönnum færri en það nægði Seltirningum ekki til að minnka muninn og staðan er 12:9, heimamönnum í hag.

19. Selfyssingar hafa aukið forskotið í 10:7. Þjálfari þeirra, Sebastian Alexandersson, stendur í markinu í kvöld og hefur farið á kostum til þessa, sýnt gamla takta og varið 9 skot.

15. Grótta komst yfir í fyrsta skipti, 6:7, en Selfyssingar svöruðu því með tveimur mörkum og staðan 8:7 um miðjan fyrri hálfleik.


10. Selfyssingar byrjuðu betur og komust í 4:1 en Grótta hafði jafnað metin í 4:4 þegar rúmar níu mínútur voru liðnar.

Ágúst Jóhannsson þjálfari Gróttu er kominn með lið sitt í …
Ágúst Jóhannsson þjálfari Gróttu er kominn með lið sitt í úrslit og messar hér yfir sínum mönnum í leiknum í kvöld. mbl.is/Guðmundur Karl
Málin rædd í spennuþrungnu íþróttahúsinu á Selfossi þar sem jafnt …
Málin rædd í spennuþrungnu íþróttahúsinu á Selfossi þar sem jafnt var eftir venjulegan leiktíma. mbl.is/Guðmundur Karl
Sumir voru orðnir fáklæddir á pöllunum þegar leið á leikinn.
Sumir voru orðnir fáklæddir á pöllunum þegar leið á leikinn. mbl.is/Guðmundur Karl
Áhorfendur á Selfossi vel með á nótunum rétt áður en …
Áhorfendur á Selfossi vel með á nótunum rétt áður en leikurinn hófst. mbl.is/Guðmundur Karl
Íþróttahúsið á Selfossi var orðið fullt klukkutíma fyrir leik í …
Íþróttahúsið á Selfossi var orðið fullt klukkutíma fyrir leik í kvöld og hér sjást nokkrir áhorfendanna. mbl.is/Guðmundur Karl
Gróttumenn fjölmenntu á Selfoss og styðja hér sitt lið.
Gróttumenn fjölmenntu á Selfoss og styðja hér sitt lið. mbl.is/Guðmundur Karl
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert