Þórir: Viljum vinna á þjóðhátíðardaginn

Þórir Ólafsson er klár í slaginn með íslenska landsliðinu gegn …
Þórir Ólafsson er klár í slaginn með íslenska landsliðinu gegn Makedóníu í Laugardalshöll í dag. mbl.is/Golli

„Guðmundur þjálfari hefur kortlagt Makedóníumenn eins og honum er einum lagið og farið yfir leikskipulagið með okkur. Nú er það okkar, leikmanna landsliðsins að leika eins og fyrir okkur er lagt. Ég trúi því að við vinnum og að það gerist varla skemmtilegra en að leika fyrir fram fullt hús áhorfenda á þjóðhátíðardaginn. Stærra verður það vart," segir Þórir Ólafsson, hornamaður íslenska landsliðsins í handknattleik, sem mætir Makedóníu í Laugardalshöll klukkan fimm í dag.

Þetta er síðasti heimaleikur Íslands í undankeppni Evrópumótsins í handknattleik. Með sigri í dag tryggir íslenska landsliðið sér sæti í lokakeppninni sem fram fer í Austurríki frá 19. til 31. janúar á næsta ári.

„Við höfum farið vel yfir leik okkar gegn Makedóníumönnum ytra í mars og læra af því sem þá vel gert og einnig því sem betur mátti fara. Ég tel að við séum með nógu sterkt lið til þess að vinna leikinn og tryggja okkur þar sem sæti á EM fyrir framan fulla Höll af áhorfendum," sagði Þórir eftir æfingu íslenska landsliðsins í Laugardalshöll í gærkvöldi. Það var síðasta æfing íslenska landsliðsins fyrir leikinn í dag sem hefst kl. 17.

„Það kemur ekki til greina að fara til Eistlands og ætla sér að tryggja EM sætið þar. Við viljum ganga frá þessu í dag í Laugardalshöllinni á sjálfum þjóðhátíðardaginn fyrir framan okkar stuðningsmenn," sagði Þórir sem bíður óþreyjufullur eftir að flautað verður til leiks.

Enn er hægt að fá aðgöngumiða á leikinn. Þá má kaupa á midi.is.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert