Ólafur: Fór 20 sinnum á klósettið

Ólafur Stefánsson og Arnór Atlason fagna á heimavelli Barcelona í …
Ólafur Stefánsson og Arnór Atlason fagna á heimavelli Barcelona í gærkvöld. Ljósmynd/http://www.eurohandball.com

Ólafur Stefánsson átti magnaðan leik fyrir danska meistaraliðið AG Köbenhavn þegar það sló út ríkjandi Evrópumeistara Barcelona í átta liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í handknattleik í gærkvöld.

Barcelona hafði betur í seinni leiknum á heimavelli, 36:33, en danska liðið vann heimaleikinn með sex marka mun, 29:23.

,,Ég var mjög taugaóstyrkur fyrir leikinn og ég held að ég hafi þurft að fara 20 sinnum á klósettið fyrir leikinn. Það er gott að vera taugóstyrkur þegar maður er næstum 40 ára gamall. Það gerist ekki það oft,“ sagði Ólafur, sem skoraði 7 mörk í leiknum en Guðjón Valur Sigurðsson var markahæstur í danska stjörnuliðinu með 8 mörk.

Íslendingarnir í AG-liðinu áttu allir frábæran leik en þeir Snorri Steinn Guðjónsson og Arnór Atlason skoruðu 4 mörk hvor.

Auk AG Köbenhavn er Atletico Madrid, sem áður hét Ciudad Real og Ólafur Stefánsson lék með, komið í undanúrslitin en liðið vann Cimos Koper, 31:24 og samanlagt, 54:50.

Í dag kemur svo í ljós hver hin tvö liðin verða í undanúrslitunum. Ademar Leon er komið með annan fótinn í undanúrslitin eftir 11 marka sigur á Füchse Berlin í fyrri leiknum. Þá eigast við Kiel og Croatia Zagreb en þau gerðu jafntefli í fyrri leiknum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert