Ólafur: Var ekki hægt að hafna þessu

Ólafur Gústafsson.
Ólafur Gústafsson. mbl.is/Golli

Ólafur Gústafsson stórskytta FH-liðsins í handknattleik skrifaði í morgun undir samning við þýska úrvalsdeildarliðið Flensburg en forráðamenn félagsins settu sig í samband við FH-inga eftir að Arnór Atlason heltist úr lestinni vegna þeirra alvarlegu meiðsla sem hann varð fyrir um síðustu helgi.

Samningur Ólafs við Flensburg gildir fram í júní á næsta ári en sá möguleiki er fyrir hendi að samningurinn verði framlengdur og það jafnvel snemma á næsta ár. Ólafur heldur utan á laugardaginn og af allt gengur að óskum leikur hann sinn fyrsta leik með liðinu í næstu viku þegar Flensburg mætir Neuhauen.

„Ég sit hérna með samninginn fyrir framan mig og er að setja blakið á pappírinn,“ sagði Ólafur í samtali við mbl.is.

„Þetta kom upp daginn eftir leikinn sem Arnór meiddist í. Ég fékk hringingu frá umboðsmanni og síðan setti Flensburg sig í samband við FH. Það var ekki hægt að hafna þessu boði. Ég hef stefnt lengi að því að fara út í atvinnumennsku og þótt þetta komi á þessum tímapunkti var ekki spurning í mínum huga að taka tilboðinu. Flensburg er frábær klúbbur og er lið sem hefur mikla hefð og frábæra umgjörð,“ sagði Ólafur.

Nánar verður rætt við Ólaf í Morgunblaðinu á morgun.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert