„Verður miklu harðari leikur“

Kári Kristján Kristjánsson í landsleik
Kári Kristján Kristjánsson í landsleik mbl.is/Eva Björk Ægisdóttir

Línumaðurinn skeggjaði, Kári Kristján Kristjánsson, var sæmilega brattur fyrir leikinn gegn Serbíu í undankeppni EM á morgun þegar mbl.is ræddi við hann á hóteli landsliðsins í Nís. Kári segist reikna fastlega með því að mun meiri líkamleg átök verði í leiknum en í fyrri leiknum í Laugardalshöll þar sem Ísland vann óvæntan stórsigur 38:22.

„Þetta verður pottþétt miklu harðari leikur og þeir munu komast upp með að spila fast hérna á morgun. Ef það verður full höll, sem ég reikna með, þá held ég að þetta verði erfitt verkefni fyrir okkur. Það verður það örugglega,“ sagði Kári og segist búast við því að Serbarnir sýni aðrar hliðar en í leiknum í Reykjavík. Hann bendir á að þrír af bestu mönnum Serba náðu sér ekki á strik í fyrri leik liðanna.

„Við megum reikna með því að allt annað verði uppi á teningnum. Varnarleikur þeirra verður þéttari og mun ekki slitna eins mikið í sundur og á miðvikudagskvöldið. Þá brotnuðu þeir mjög fljótlega og við spiluðum frábærlega. Leikmönnum eins og Momir Ilic og Marko Vujin var skipt út af tvisvar eða þrisvar sem er óvanalegt að sjá. Ég reikna með Serbunum miklu sterkari í sókninni en auk þess voru þeir ekki með neina markvörslu. Þá var Rastko Stojkovic ekki með mark í leiknum  heima sem er afar ólíkt honum. Þetta eru allt þættir sem þeir geta lagað,“ sagði Kári við mbl.is.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert