„Þetta var mjög gaman“

Þórir Hergeirsson fagnar ásamt leikmönnum sínum í úrslitaleiknum í gær.
Þórir Hergeirsson fagnar ásamt leikmönnum sínum í úrslitaleiknum í gær. AFP

„Mér líður vel. Sigurinn er aðeins farinn að síga inn núna þegar ég er á leið á hótelið okkar í sturtu og rakstur. Það er kominn tími til að skola af sér svitann og raka sig um leið. Ég lít út eins og útilegumaður. Stelpurnar í liðinu eru svo hjátrúarfullar að við karlmennirnir í hópnum megum helst ekki raka okkur meðan mótin standa yfir,“ sagði Þórir Hergeirsson, landsliðsþjálfari Noregs, í samtali við Morgunblaðið í gærkvöldi, eftir að norska landsliðið varð heimsmeistari í handknattleik kvenna undir hans stjórn.

Noregur vann Holland með miklum yfirburðum í leiknum, 31:23, eftir að hafa ráðið lögum og lofum í fyrri hálfleik og verið með 11 marka forskot í hálfleik, 20:9.

„Fyrri hálfleikur var sá besti sem landsliðið hefur lengi leikið undir minni stjórn. Allt gekk nánast upp. Grimsbö var frábær í markinu auk þess sem bæði varnar- og sóknarleikur gekk eins og í sögu. Síðari hálfleikur þróaðist eins og oft vill verða þegar annað liðið hefur yfirburði,“ sagði Þórir en hollenska liðið náði að minnka muninn niður í sex mörk, 26:20, þegar tíu mínútur voru til leiksloka.

„Þá tók ég leikhlé og fór yfir málin. Sagði stelpunum að hætta að horfa á klukkuna og markatöfluna og einbeita sér að leiknum og við náðum fljótlega aftur 10 marka mun,“ sagði Þórir.

Nánar er rætt við Þóri í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert