Japanir unnu magnaðan sigur á Þjóðverjum

Japanir fagna mögnuðum sigri.
Japanir fagna mögnuðum sigri. AFP/Ina Fassbender

Japan vann magnaðan 2:1-sigur á Þýskalandi er liðin mættust í E-riðli á HM karla í fótbolta í Katar í dag. Þýska liðið var með forystuna þegar korter var eftir af venjulegum leiktíma, en Japan skoraði tvö mörk í lokin og tryggði sér sigurinn. 

Ilkay Gündogan kom Þjóðverjum yfir úr víti á 33. mínútu. Varamaðurinn Ritsu Doan jafnaði á 75. mínútu. Takuma Asano skoraði sigurmarkið á 84. mínútu. 

Ritsu Doan fagnar jöfnunarmarki sínu í dag.
Ritsu Doan fagnar jöfnunarmarki sínu í dag. AFP/Jewel Samad

Leikurinn er liður í E-riðli, en Kostaríka og Spánn mætast klukkan 16 í sama riðli.  

Japanska liðið kom boltanum í markið á 8. mínútu þegar Daizen Maeda skoraði af stuttu færi eftir fyrirgjöf frá hægri. Maeda var hins vegar vel fyrir innan og taldi markið því ekki. 

Fyrsta góða færi Þjóðverja kom á 16. mínútu en þá skallaði miðvörðurinn Antionio Rüdiger rétt framhjá eftir hornspyrnu frá Joshua Kimmich. Fjórum mínútum síðar átti Kimmich fast skot rétt utan teigs en Shuichi Gonda varði vel. 

Ilkay Gündogan fagnar fyrsta marki leiksins.
Ilkay Gündogan fagnar fyrsta marki leiksins. AFP/Jewel Samad

Þjóðverjar héldu áfram að sækja á japanska markið og Ilkay Gündogan var næstur að reyna. Hann átti þá skot rétt utan teigs á 27. mínútu, en boltinn nokkuð beint á Gonda í markinu, sem greip boltann. 

Gonda gerði sig hins vegar sekan um mistök á 31. mínútu þegar hann tók David Raum niður innan teigs og vítaspyrna dæmd. Ilkay Gündogan fór á vítapunktinn og skoraði af miklu öryggi, 1:0. 

Daizen Maeda skorar mark sem var dæmt af.
Daizen Maeda skorar mark sem var dæmt af. AFP/Anne-Christine Poujoulat

Yfirburðir Þýskalands voru töluverðir og hélt liðið áfram að sækja. Jamal Musiala átti skot rétt yfir við vítateigslínuna undir lok fyrri hálfleiks og Kai Havertz skoraði mark í blálok fyrri hálfleiks, sem var dæmt af vegna rangstöðu. Að lokum skildi þó aðeins eitt mark liðin af í hálfleik, 1:0. 

Þýska sóknin hélt áfram í seinni hálfleik og Serge Gnabry var nálægt því að skora annað markið strax í upphafi síðari hálfleiks, en hann negldi boltanum í slánna. Örfáum mínútum síðar átti Musiala skot rétt yfir, eftir að hafa farið illa með nokkra varnarmenn. Þrátt fyrir fjölmörg færi til að bæta við öðru markinu, var staðan áfram 1:0. 

Ilkay Gündogan var hársbreidd frá því að loks skora annað markið á 60. mínútu en hann lagði boltann í stöngina úr teignum, eftir skemmtilegt spil. Tíu mínútum síðar átti Jonas Hoffmann hættulegt skot sem Gonda varði glæsilega og í kjölfarið fékk Serge Gnabry tvö hættuleg færi en enn varði Gonda og enn var staðan 1:0. 

Thomas Müller með boltann í dag.
Thomas Müller með boltann í dag. AFP/Christine Poujoulat

Japan var nálægt því að jafna skömmu síðar þegar Hiroki Ito átti fast skot í teignum en Manuel Neuer varði glæsielga og sá til þess að Japanir jöfnuðu ekki leikinn óverðskuldað. Það lifði þó ekki lengi, því Ritsu Doan jafnaði á 75. mínútu er hann fylgdi á eftir úr teignum og skoraði af öryggi. 

Japanir voru ekki sáttir við jafntefli því Takuma Asano, sem kom inn á sem varamaður, eins og Doan, slapp inn fyrir vörn Þjóðverja á 84. mínútu og skoraði með glæsilegu skoti upp í þaknetið af þröngu færi og staðan allt í einu orðin 2:1, Japan í vil. 

Leon Goretzka fékk besta færi Þýskalands til að jafna, en hann setti boltann framhjá úr góðu færi í uppbótartímanum. Magnaður sigur Japana varð því staðreynd. 

Japan og Þýskaland mætast í Doha.
Japan og Þýskaland mætast í Doha. AFP/Antonin Thuillier

Lið Þýskalands:

Mark: Manuel Neuer

Vörn: Thilo Kehrer, Nico Schlottenbeck, Antionio Rüdiger, David Raum

Miðja: Serge Gnabry (Youssoufa Moukoko 90.), Joshua Kimmich, Thomas Müller (Jonas Hofmann 67.), Ilkay Gündogan (Leon Goretzka 67.), Jamal Musiala (Mario Götze 79.)

Sókn: Kai Havertz (Niclas Füllkrug 79.)

Lið Japans:

Mark: Shuichi Gonda

Vörn: Hiroki Sakai (takumi Minamino 75.), Maya Yoshida, Hiroki Ito, Yto Nagatomo (Kaoru Mitoma 56.)

Miðja: Takefusa Kubo (Tekehiro Tomiyasu 45.), Wataru Endo, Daichi Kamada, Hidemasa Morita, Ao Tamaka (Ritsu Doan 71.)

Sókn: Daizen Maeda (Takuma Asano 56.)

Þýska liðið skoðar völlinn í Doha fyrir leik.
Þýska liðið skoðar völlinn í Doha fyrir leik. AFP/Ina Fassbender
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert