Leikjaálagið er glórulaust

Hlynur Bæringsson, fyrirliði íslenska landsliðsins í körfuknattleik, hefur gengið í gegnum súrt og sætt með landsliðinu í gegnum árin en hann er á leið á Evrópumeistaramótið með landsliðinu sem fer fram í næsta mánuði.

„Ég hef gengið í gegnum meira súrt en sætt, það verður að viðurkennast. Þetta verður toppurinn á ferlinum,“ sagði Hlynur við mbl.is. Riðill Íslands er leikinn í Berlín og er ógnarsterkur, en menn trúa á verkefnið.

„Við verðum að hafa trú okkur. Við megum ekki vera eitthvað litlir í okkur, þá fer þetta mjög illa og verður plástur í hverjum leik. Við verðum að hafa trú á hvað við getum, hvort sem það dugi eða ekki,“ sagði Hlynur. Ísland spilar fimm leiki á sex dögum í Berlín og ljóst er að álagið verður gríðarlegt, en fyrirliðinn er ekki ánægður með svo þétta leikjadagskrá.

„Þetta er eiginlega einum of og hálf glórulaust finnst mér. Það verður að koma í ljós hvernig það fer, það getur vel verið að menn lognist bara útaf eftir leikina. Maður verður ansi þreyttur og kannski það helsta sem maður hefur áhyggjur af,“ sagði Hlynur, sem er í mikilvægu hlutverki og vanur að berjast eins og ljón í leikjum.

„Ef ég geri það ekki þá hef ég ekkert erindi þarna. Ef ég ætla að taka þetta á töffaraskap þá get ég alveg sleppt því að mæta,“ sagði Hlynur Bæringsson meðal annars við mbl.is.

Nánar er rætt við Hlyn í meðfylgjandi myndskeiði.

Hlynur Bæringsson.
Hlynur Bæringsson. Eva Björk Ægisdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert