Rekstarkostnaður móðurfélags American Airlines eykst

Airbus A300-600 þota bandaríska flugfélagins American Airlines.
Airbus A300-600 þota bandaríska flugfélagins American Airlines.

AMR Corp., móðurfélag bandaríska flugfélagsins American Airlines, tilkynnti eftir lokun markaða í kvöld, að rekstarkostnaður hefði hækkað á síðustu mánuðum ársins vegna aukinna viðhaldsútgjalda og truflana, sem urðu á flugáætlun vegna veðurs í nóvember og desember. Er þetta sagt benda til þess að kostnaður sem hlutfall af sætaframboði verði hærri en sérfræðingar höfðu áður spáð. FL Group tilkynnti í dag að það hefði eignast 5,98% hlut í AMR.

Sérfræðingar höfðu gert ráð fyrir því að rekstur AMR myndi skila hagnaði eða vera í járnum á fjórða ársfjórðungi en nú spá þeir því að tap verði á rekstrinum. American Airlines er stærsta flugfélag í Bandaríkjunum.

Jamie Baker, sérfræðingur hjá fjármálafyrirtækinu J.P. Morgan, sagði í tilkynningu í kvöld, að tilkynning AMR hefði orðið til þess, að hann spái nú að tap á rekstri AMR á síðasta ársfjórðungi yrði 40 sent á hlut. Baker hafði áður spáð því að reksturinn yrði í járnum.

Sérfræðingar höfðu almennt búist við því að hagnaður AMR yrði um 50 sent á hlut á fjórða ársfjórðungi samkvæmt könnun, sem Thomson Financial gerði.

Baker gerir enn ráð fyrir því að AMR muni skila hagnaði á árinu 2006 en lækkaði fyrri hagnaðarspá úr 1,27 dölum á hlut í 96 sent á hlut. Meðaltal í könnun blaðsins The Wall Street var 1,77 dalir á hlut.

William J. Greene, sérfræðingur hjá Morgan Stanley, breytti einnig spá sinni um AMR í dag. Hann hafði áður gert ráð fyrir 71 sents hagnaði á hlut en spáir nú 5 senta tapi á hlut. Þá lækkaði Greene einnig hagnaðarspá sína fyrir allt árið í 1,18 dali á hlut.

Greene segir í tilkynningu að hann hafi greinilega verið of bjartsýnn á tekjur AMR á þessu ári. Hins vegar sé útlitið fyrir næsta ár gott þótt hækkandi kostnaður kunni að draga heldur úr hagnaðarvoninni.

Bandarísk flugfélög hafa reynt að mæta hækkandi eldsneytisverði með fargjaldahækkunum á undanförnum misserum. Um helgina tilkynntu stóru flugfélögin um 5 dala hækkun á mörgum flugleiðum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK