Glitnir spáir stýravaxtahækkun í apríl

Seðlabanki Íslands
Seðlabanki Íslands mbl.is/Golli

Greining Glitnis spáir því að bankastjórn Seðlabanka Íslands hækki stýrivexti um 0,50%, í 15,5%, á næsta vaxtaákvörðunardegi bankans 10. apríl næstkomandi samhliða því sem bankinn birtir nýja þjóðhags- og verðbólguspá.

„Þá teljum við að vöxtum verði haldið óbreyttum í 15,5% fram á þriðja ársfjórðung til að ná niður tímabundnum verðbólguþrýstingi og veita verðbólguvæntingum traust akkeri.

Við spáum því að því stýrivaxtahækkunarferli sem hófst á vormánuðum ársins 2004 ljúki þar með og að bankinn hefji lækkunarferli vaxta sinna á þriðja fjórðungi ársins þegar skýrar vísbendingar eru komnar fram um betra jafnvægi hagkerfisins, að hægja sé farið á innlendri eftirspurn og verulega hafi dregið úr verðbólguþrýstingi.

Við teljum að bankinn ríði á vaðið í september og lækki þá vexti sína um 0,50 prósentustig og að vextir verði komnir í 14,5% í árslok. Þá spáum við því að vextir verði lækkaðir ört á árinu 2009, að verðbólgumarkmið bankans náist um mitt árið og að vextir verði 8,0% í lok þess árs.

Áður spáðum við því að vextir væru komnir í 11,5% í lok þessa árs og 7,0% í árslok 2009.Gengi krónunnar hefur lækkað snarpt undanfarnar vikur og miklar sveiflur verið á gengisvísitölunni.

Við spáum því að gengisvísitala erlendra gjaldmiðla haldist nærri núverandi vísitölugildi (um 150-151) að meðaltali á öðrum fjórðungi ársins en reiknum með því að áfram verði talsverðar sveiflur í gengi krónunnar á þeim tíma.

Aðstæður á alþjóðlegum fjármálamörkuðum, lítil áhættulyst innlendra sem erlendra fjárfesta, skert aðgengi að lánsfé og þrengingar á innlendum gjaldeyrisskiptamarkaði hafa stuðlað að veikingu krónunnar að undanförnu og reiknum við með að þessir þættir verði ráðandi í þróun gengis krónunnar enn um sinn.

Við spáum því að krónan taki að styrkjast á sumarmánuðum þessa árs og að krónan styrkist hægt og bítandi út spátímann eftir því sem dregur úr ytra ójafnvægi í þjóðarbúskapnum, áhættulyst fjárfesta eykst og hagvaxtarhorfur glæðast. Við reiknum með því að gengisvísitalan verði nærri 135 stigum í árslok, Bandaríkjadalur í 67 krónum og evran verði komin í 104,5 krónur. Þá spáum við að gengisvísitalan verði í kringum 126 í lok árs 2009, dollarinn í tæpum 63 krónum og evran í 97,5 krónum," samkvæmt nýrri spá Greiningar Glitnis.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK