Hollendingar hóta málsókn

Icesave reikningur Landsbankans
Icesave reikningur Landsbankans Retuers

Sífellt hækkar sú fjárhæð sem talið er sveitarfélög í Hollandi hafi átt inni á reikningum Icesave. Samkvæmt frétt hollenska ríkisútvarpsins nemur tap hollenskra skattgreiðenda 236,5 milljónum evra, jafnvirði nærri 36 milljarða króna en áður hafði komið fram að hollensk sveitarfélög hafi átt 59 milljónir evra inni á reikningum Icesave í Hollandi.

Ísland sagt nánast gjaldþrota

Segir í frétt hollenska útvarpsins að miklar efasemdir séu uppi um hvort sveitarfélögin fái féð til baka enda sé Ísland nánast gjaldþrota og hafi formlega óskað eftir aðstoð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Haft er eftir Wouter Bos, fjármálaráðherra Hollands að einstaklingar hafi átt á bilinu 1,6 til 1,7 milljarða evra inni á reikningum íslenskra banka í Hollandi og að þeir muni fá sparifé sitt til baka.

Harðar ásakanir á hendur Fjármálaeftirlitinu

Segir í fréttinni að mikil reiði ríki í Hollandi vegna þess að Seðlabanki Hollands hafi ekki varað við mögulegum erfiðleikum íslenskra fjármálastofnana.

Í gær sagði talsmaður hollenska fjármálaráðuneytisins að hollenski seðlabankinn hafi íhugað að vara við Icesave reikningum og þeim háu innlánsvöxtum sem þar voru í boði en lög og reglur hafi komið í veg fyrir slíka viðvörun. Ef slík viðvörun hefði verið gefin út hefði það væntanlega þýtt að sparifjáreigendur hefðu tekið allt sitt út af reikningum Icesave sem hefði flýtt fyrir falli Landsbankans.

Í gær sagði Bos við fjölmiðla að seðlabanki Hollands hafi ekki fengið réttar upplýsingar um fjárhagsstöðu íslensku bankana frá Fjármálaeftirliti Íslands. „Fjármálaeftirlitið íslenska sagði við seðlabanka Hollands að allt væri í góðu þar til yfir lauk,” sagði Bos og bætti við: „Við gætum endað fyrir dómstólum vegna þessa.”

Þýðir væntanlega tafir á framkvæmdum víðsvegar um Holland

Segir í frétt hollenska útvarpsins að þrátt fyrir að málið fari fyrir rétt þá geti það tekið mörg ár þar til Ísland verði komið í þá stöðu að geta greitt hollenskum sveitarfélögum til baka. Peningarnir sem voru settir inn á reikninga íslensku bankana voru eyrnamerktir framkvæmdum á vegum sveitarfélaganna um allt Holland og hætta sé á að þetta geti tafið fyrir framkvæmdum á vegum hollenskra sveitarfélaga.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK