Mikilvægt að draga réttan lærdóm af skýrslunni

Innan Íslandsbanka er nú verið að fara yfir niðurstöður skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis með það að markmiði að skoða hvaða umbætur kunna að vera nauðsynlegar innan bankans. Þetta kom fram á aðalfundi bankans í dag.

Birna Einarsdóttir, bankastjóri, sagði að bankinn ætlaði sér að fara vandlega í gegnum skýrsluna  enda væri mikilvægt að draga réttan lærdóm af niðurstöðu hennar. Hún sagði ljóst að bankarnir hefðu verið of áhættusæknir. Hinsvegar yrði að gæta að því að herða regluverk ekki svo mikið að atvinnulífið myndi líða fyrir það. Bankarnir yrðu að vera tilbúnir að fjármagna góðar hugmyndir sem byggðu á vönduðum áætlunum.

Friðrik Sophusson, stjórnarformaður bankans, sagði á aðalfundinum að sú gagnrýni, sem hefði komið fram um umsvif bankanna á fyrirtækjamarkaði, væri að mörgu leyti skiljanleg og að mikilvægt væri að draga úr tortryggni -þar væri gagnsæi lykilatriði. 

„Það eru eðlileg viðbrögð stjórnvalda hér og erlendis að bregðast við með því að herða regluverk fjármálafyrirtækja enn frekar. En það má ekki gleyma því að það voru ekki reglurnar sem brugðust heldur þeir sem áttu að fylgja þeim eftir," sagði Friðrik m.a.

Þá sagði hann, að stjórnin teldi mikilvægt að fjárfesta enn frekar í innviðum bankans. Sú stefna endurspeglaðist í þeirri ákvörðun stjórnar að leggja til að arður verði ekki greiddur út fyrir starfsárið 2009.

Engar breytingar urðu á stjórn bankans á aðalfundinum en í stjórninni sitja Friðrik, Árni Tómasson, John E. Mack, Marianne Økland, Martha Eiríksdóttir, Neil Graeme Brown og Raymond J. Quinlan.
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK