Óbreytt lánshæfismat

mbl.is

Matsfyrirtækið Moodys sendi frá sér skýrslu í gær þar sem farið er yfir stöðu efnahagsmála hér á landi. Skýrslan felur ekki í sér breytingu á lánshæfismati. Lánshæfiseinkunnir íslenska ríkisins eru hjá Moody's Baa3 fyrir langtímaskuldbindingar ríkissjóðs í innlendri og erlendri mynt og P-3 fyrir skammtíma skuldbindingar. Horfur varðandi lánshæfismatið eru neikvæðar og endurspeglar það einna helst áhættu vegna losun gjaldeyrishafta og að slakað verði á aðhaldinu í ríkisfjármálum.

Matið gæti hækkað ef merki verða um kröftugan bata

Moody's segir að það sem getur leitt til þess að lánshæfiseinkunnir ríkissjóðs verði hækkaðar er að ef merki eru um kröftugan og varanlegan efnahagsbata, aðhald í ríkisfjármálum og stöðug króna á meðan á afléttingu gjaldeyrishaftanna stendur. Það sem getur leitt til þess að einkunnir verði lækkaðar er m.a. ef slakað yrði á aðhaldi í ríkisfjármálunum eða ef Icesave leiðir til miklu hærri skuldbindingar fyrir hið opinbera en nú er vænst, að því er fram kemur í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka.

Styrkur hagkerfisins í meðallagi

Að mati Moody´s er styrkur íslenska hagkerfisins í meðallagi. Þrátt fyrir verulegan samdrátt í kjölfar banka- og gjaldeyriskreppunnar er Ísland enn á meðal best stæðu landa heims á mælikvarða vergrar landsframleiðslu á mann. Þetta gerir styrkleika íslenska hagkerfisins meiri en ella en á móti kemur smæð hagkerfisins sem gerir landið viðkvæmari fyrir áföllum. Reiknar matsfyrirtækið með að hagvöxtur verði hóflegur hér á landi á þessu ári og því næsta, eða um 2,5%. Er spá fyrirtækisins þar í takti við flestar opinberar spár sem birtar hafa verið undanfarið. Spá Seðlabankans frá því fyrr í mánuðinum gerir þannig ráð fyrir 2,3% hagvexti á næsta ári en í okkar spá sem birt var í október gerir ráð fyrir 2,2% vexti.  


Efnahagsreikningur hins opinbera er það sem stendur lánshæfismati ríkissjóðs einna helst fyrir þrifum segir Moody´s. Aðhaldsamar aðgerðir í ríkisfjármálum á síðustu árum hafa samt skilað árangri þ.a. reiknað er með að tekjuafkoma hins opinbera verði neikvæð um 5,7% í ár sbr. 13,5% árið 2008. Reiknað er með að skuldir hins opinbera sem hlutfall af VLF muni nema um 98% í ár og fari svo minnkandi á næstu árum, að því gefnu að aðhaldi verði beitt áfram í ríkisfjármálum.


Fyrirtækið er nokkuð bjartsýnt á að ef fjárlagafrumvarp næsta árs verði samþykkt og farið verður eftir áætlun um jöfnuð í ríkisfjármálum á næstu árum þá takist yfirvöldum að snúa skuldum hins opinbera í viðráðanlegra stig. Þó tekur Moody´s eftir að aðlögun ríkisfjármála er hægari nú en var g.r.f. í tengslum við samning við AGS. Þrátt fyrir að endurskoðuð áætlun í ríkisfjármálum g.r.f. að skuldahlutfallið minnki á næstu árum, þá myndi fyrirtækið vilja sjá metnaðarfyllra markmið. Það gæti skilað sér í stöðugar horfur um einkunn ríkissjóðs þar sem það myndi gera yfirvöldum kleift að ná trúverðugri stefnu í ríkisfjármálum nú þegar að áætlun AGS er lokið.
Að mati Moody´s er það áhættusamt en nauðsynlegt að losa um gjaldeyrishöftin. Fyrirtækið telur að losun haftanna og aðgengi að erlendri fjármögnun séu lykilþættir að efnahagsbata hér á landi. Telur fyrirtækið þó mikla hættu á gengisfalli krónunnar ef of hratt verður farið í afléttinguna, ekki síst vegna þeirra erlendu fjárfesta sem hafa verið fastir inni í krónunni síðan um haustið 2008. Áætlað er að sú staða nemi um 465 ma.kr., eða sem nemur um 30% af VLF.


Moody's segir að nýlegum dómur Hæstaréttar um gildi neyðarlaganna um forgang innstæðna við skipti á búum gömlu bankanna hefur dregið verulega úr áhættu sem mögulegar lögsóknir hafa á efnahagsreiknings hins opinbera. Er vænt þess að eignir þrotabús Landsbankans muni nægja til þess að greiða Bretum og Hollendingum til baka innistæðatrygginguna að fullu. Þó er áhættan af lögsóknum enn til staðan þar til að endanlega hefur lokið við Icesave-málið, en Moody´s telur  hátt endurheimtuhlutfall úr búi Landsbankans milda þessa áhættu talsvert.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK