Verðbólguvæntingar vænkast

Verð á matvælum hækkaði á öðrum ársfjórðungi.
Verð á matvælum hækkaði á öðrum ársfjórðungi. mbl.is/Gúna

Horfur eru á að meðalverðbólga ársins 2012 verði 5,4% eða 0,6 prósentum minni en búist var við í maí. Meginskýringin á minni verðbólgu er töluverð gengisstyrking krónunnar og mikil lækkun olíuverðs að undanförnu. Þetta kemur fram í Peningamálum Seðlabanka Íslands sem komu út í dag.

Sterkara gengi krónunnar leiðir einnig til þess að verðbólga hjaðnar ívið hraðar á næsta ári en gert var ráð fyrir í maí og er því spáð að hún verði að meðaltali 3,4%.

Gengisþróun krónunnar mun ráða miklu um framvindu verðbólgunnar. Ef krónan hækkar frekar verður verðbólgan, að öðru óbreyttu, minni og öfugt ef hún lækkar. Launaþróun gæti stuðlað að meiri verðbólgu, m.a. vegna endurskoðunar kjarasamninga í byrjun næsta árs. Þá er óvissa um þróun íbúðaverðs.

Alþjóðlegar efnahagshorfur eru enn ótraustar og gæti aukinn óróleiki á erlendum fjármálamörkuðum sett efnahagsbatann í uppnám. Slakinn gæti því orðið meiri og verðbólga eitthvað minni, segir í Peningamálum Seðlabanka Íslands.

Verðbólga mældist 5,8% á öðrum ársfjórðungi 2012 eða 0,3 prósentum minni en þá var reiknað með og hjaðnaði úr 6,4% á fyrsta fjórðungi.

Dagvöruverðshækkanir hafa áhrif á verðbólgumælingar

Þeir undirþættir sem höfðu mest áhrif til hækkunar vísitölu neysluverðs á öðrum fjórðungi voru dagvara og almenn þjónusta en lækkun bensínverðs hafði aftur á móti töluverð áhrif til lækkunar og skýrir það stærstan hluta spáskekkjunnar, ásamt því að gengi krónunnar var nokkru sterkara.

Vísitala neysluverðs lækkaði um 0,7% í júlí frá fyrri mánuði eftir að hafa hækkað um 0,5% í júní og haldist óbreytt í maí. Lækkunina í júlí má rekja til verðlækkana á sumarútsölum og lækkunar flugfargjalda og bensínverðs þótt hækkun matvöruverðs hafi vegið á móti. Tólf mánaða verðbólga nam 4,6% í júlí og hafði hjaðnað úr 6,4% í apríl sl.Verðhækkanir á almennri þjónustu og dagvöru lögðu mest til tólf mánaða verðbólgu í júlí.

Undirliggjandi ársverðbólga, mæld með kjarnavísitölu 3 sem undanskilur áhrif skatta, sveiflukenndra matvöruliða, bensíns, opinberrar þjónustu og raunvaxtakostnaðar húsnæðislána, nam 4,7% í júlí og hafði hjaðnað úr 5,9% í apríl.

Ársverðbólga samkvæmt samræmdu neysluverðsvísitölunni, sem undanskilur húsnæðisverð, mældist hins vegar 5,4% í júlí og hafði hjaðnað úr 7,2% í apríl. Verðbólga á þennan mælikvarða hefur því mælst nokkru meiri en verðbólga miðað við vísitölu neysluverðs án húsnæðis um nokkurt skeið.

Verðbólguvæntingar reiknaðar út frá vaxtamun verðtryggðra og óverðtryggðra skuldabréfa hafa lækkað frá útgáfu Peningamála í maí. Miðað við þennan mælikvarða eru væntingar um meðalverðbólgu næstu fimm ár tæplega 4½% sem er um 1 prósentu minna en um miðjan maí sl. Væntingar um verðbólgu til enn lengri tíma, þ.e. til fimm ára eftir fimm ár, hafa hins vegar lítið breyst frá því í maí og eru einnig um 4½%. 

Heimilin spá minni verðbólgu

Verðbólguvæntingar heimila hafa lækkað lítillega samkvæmt könnun Capacent Gallup sem framkvæmd var í maí og júní sl. Þær námu 6,3% til eins árs og voru því 0,2 prósentum lægri en í síðustu könnun í mars sl. Væntingar heimila um verðbólgu eftir tvö ár lækkuðu um ½ prósentu frá fyrri könnun og mældust 5½%. Verðbólguvæntingar fyrirtækja til eins árs héldust hins vegar óbreyttar milli kannana í júní sl. og mældust 5%.

Ólíklegt að verðbólgumarkmið náist fyrr en í lok árs 2014

Greining Íslandsbanka telur ólíklegt að verðbólga verði nálægt verðbólgumarkmiði Seðlabankans, 2,5%, fyrr en í lok árs 2014 sem er svipað og spáð var í maí.

Segir í skýrslu bankans að óvissa um þetta sé mikil, og gæti verðbólga hjaðnað hraðar eða hægar, en þar ræður gengisþróun krónunnar miklu. Ef krónan hækkar frekar verður verðbólgan, að öðru óbreyttu, minni en þeir reikna nú með og augljóslega öfugt ef hún lækkar. Aðrir þættir sem töluverð óvissa er um er þróun íbúðarverðs sem og launaþróun, en í byrjun næsta árs er endurskoðun á kjarasamningum.

Að lokum er nefnt í skýrslu bankans að aukinn óróleiki á erlendum fjármálamörkuðum gæti sett efnahagsbatann hér innlands í uppnám, sem gæti leitt til meiri slaka í hagkerfinu en nú er reiknað með og því gæti verðbólgan orðið eitthvað minni.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK