Stormasöm flugferð Iceland Express

Iceland Express
Iceland Express

Í gær tók WOWair yfir flugrekstur og áætlunarflug Iceland Express, en þessir aðilar hafa undanfarna mánuði barist hart á lággjaldaflugmarkaði. Í tilkynningu í gær sagði Pálmi Haraldsson, stjórnarformaður og eigandi Iceland Express, að í núverandi samkeppnisumhverfi félagsins verði áframhaldandi tap af rekstri nema róttækar breytingar komi til. Það hafi því verið ákveðið að selja reksturinn til WOWair.

Iceland Express var stofnað árið 2002 af nokkrum athafnarmönnum sem vildu koma á fót lággjaldaflugfélagi á Íslandi. Félagið hleypti strax nokkru lífi í samkeppni á flugmarkaði, en lægsta verð sem flugfélagið kynnti fram og til baka til London var 14.160 krónur. Neytendur tóku vel í þetta og tæplega 5000 flugsæti seldust upp á fyrsta degi.

En það var ekki aðeins á samkeppnismarkaði sem hrært var upp í málum, því félagið hefur á þeim tæplega 10 árum sem það hefur starfað farið í gegnum mikinn öldusjó með nokkuð tíðum stjórnendabreytingum, tengslum við útrásarverkefni og erfiðleikum eftir efnahagshrunið. Á þessum árum hafa sjö stjórnendur stýrt fyrirtækinu, en þar af gengdi einn aðili því tvisvar. Félagið skipti þrisvar um eigendur áður en WOWair tók það yfir í gær og var meðal annars í eigu eignarhaldsfélaganna FL Group og Fons í gegnum Northern Travel Holding.  Hér að neðan er sögu félagsins gerð skil í stuttri yfirferð.

  • 2002 desember – Iceland Express stofnað af Sigurði I. Halldórssyni, Jóhannesi Georgssyni, Guðmundi Þ. Guðmundssyni, Aðalsteini Magnússyni, Hafsteini Árnasyni, Ólafi Haukssyni, Sighvati Blöndahl og Lúðvík Georgssyni. Jóhannes Georgsson er ráðinn framkvæmdarstjóri félagsins.
  • 2003 janúar – Byrjað að selja í fyrstu ferðir félagsins – félagið ætlar að fljúga til Kaupmannahafnar og London.
  • 2003 febrúar – Fyrsta flug félagsins.
  • 2004 apríl – Jóhannes Georgsson hættir sem framkvæmdastjóri og Arnþór Halldórsson tekur við.
  • 2004 september – Arnþór Halldórsson hættir sem framkvæmdastjóri eftir aðeins 5 mánaða starf og Sigurður I. Halldórsson tekur við.
  • 2004 október – Jóhannes Kristinsson og Pálmi Haraldsson kaupir ráðandi hlut í Iceland Express af stofnendum félagsins. Þeir eru einnig viðskiptafélagar í gegnum félagið Feng. Almar Örn Hilmarsson tekur við sem framkvæmdastjóri.
  • 2005 mars – Pálmi Haraldsson og Jóhannes Kristinsson kaupa norræna lággjaldaflugfélagið Sterling
  • 2005 maí – Birgir Jónsson ráðinn framkvæmdastjóri og tekur við af Almari.
  • 2005 maí – Frankfurt bætt við sem áfangastað
  • 2005 október – Öll stjórn félagsins segir af sér, Jóhannes Kristinsson, Pálmi Haraldsson, Almar Örn Hilmarsson og Haukur Alfreðsson
  • 2006 maí – 5 áfangastaðir bætast við leiðakerfið. Alicante, Berlín, Friedrichshafen, Gautaborg og Stokkhólmur. Félagið hefur flug frá Akureyri til Kaupmannahafnar.
  • 2006 nóvember – Matthías Imsland er ráðinn framkvæmdastjóri félagsins og tekur við af Birgi Jónssyni.
  • 2006 desember – Northern Travel Holding stofnað, en eigendur þess eru FL Group, Fons og Sund. Eignir félagsins eru Iceland Express, Sterling, Hekla Travel auk 51% hlut í Astreus flugfélaginu. FL selur Sterling á 20 milljarða til NTH fyrir bréf í nýju félagi. Samtals kaupverð fyrirtækja sem hið nýstofnaða félag kaupir er 28 milljarðar
  • 2007 apríl – Fyrrum eigendur Iceland Express saka Pálma Haraldsson um samkeppnislagabrot sem stjórnarmaður Flugleiða og að hafa með því hafi hann og Jóhannes Kristinsson komist ódýrt yfir félagið árið 2004.
  • 2007 júní – Basel, Billund, Eindhoven, Osló og París bætast við sem áfangastaðir. Flug frá Egilsstöðum til Kaupmannahafnar hefst.
  • 2008 nóvember – Fengur tekur yfir 92% hlut í Iceland Express með 300 milljóna eiginfjár innspýtingu. Áður hafi félagið verið metið á 800 milljónir, en kröfuhafar aðhafast ekki og samþykkja yfirtökuna. Nokkrum dögum áður hafði Matthías Imsland sagt í viðtali að félagið væri skuldlaust og með sterka eiginfjárstöðu.
  • 2009 janúar – Iceland Express kaupir Ferðaskrifstofu Íslands. Eignir þess eru meðal annars Úrval Útsýn, Plúsferðir og Sumarferðir. Matthías segir að “nokkur hundruð milljónir” muni fara inn í reksturinn.
  • 2009 júní – Álaborg, Bologna og Genf bætt við sem áfangastöðum.
  • 2010 mars – Iceland Express stofnar þjónustufyrirtækið Iceland Express handling til að sjá um flugafgreiðslu
  • 2010 júní – Félagið hefur flug til New York
  • 2011 september – Matthías Imsland hættir sem framkvæmdastjóri og færir sig yfir til WOWair. Birgir Jónsson tekur við sem forstjóri í annað skiptið.
  • 2011 september – Iceland Express fer fram á lögbannskröfu við að Matthías færi sig yfir til samkeppnisaðila
  • 2011 september - Skarphéðinn Berg Steinarsson ráðinn forstjóri Iceland Express. Birgir Jónsson hættir eftir aðeins 10 daga starf.
  • 2011 nóvember – Lögbannskröfunni er hafnað fyrir dómstól.
  • 2011 nóvember – Iceland Express semur við CSA Holidays um flug, en mikil óánægja hafði komið upp vegna óstundvísi Iceland Express.
  • 2012 mars – Iceland Express nær því að vera stundvísasta flugfélagið sem flýgur til Íslands.
  • 2012 október – WOWair tekur yfir flugrekstur og áætlunarflug Iceland Express
Sigurður I. Halldórsson (t.v.) og Jóhannes Georgsson að kynna starfsemina …
Sigurður I. Halldórsson (t.v.) og Jóhannes Georgsson að kynna starfsemina árið 2002 Jim Smart
Pálmi kom að rekstri félagsins í 8 ár í gegnum …
Pálmi kom að rekstri félagsins í 8 ár í gegnum mesta breytingaskeið þess. Sverrir Vilhelmsson
Birgir Jónsson var framkvæmdastjóri Iceland Express tvisvar. Í seinna skiptið …
Birgir Jónsson var framkvæmdastjóri Iceland Express tvisvar. Í seinna skiptið aðeins í 10 daga.
Efnisorð: flug Iceland Express
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka