Veffyrirtæki munu ýmist sameinast eða sérhæfa sig

Ólafur Örn Nielsen, annar stofnandi vefhönnunarfyrirtækisins Form5, segist telja að lykillinn að þeim árangri að hafa hannað besta vef ársins fyrir Nikita að mati Samtaka vefiðnaðarins vera hve lítið og sérhæft fyrirtækið sé.

„Við sérhæfum okkur í hönnun og þróun á notendaviðmóti og höfum svarað neitandi þegar við erum beðnir um að vinna að einhverju sem er langt utan þess fókuss. Það hefur krafist hugrekkis hjá okkur sem rekum lítið fyrirtæki að hafna verkefnum. En þegar við stofnuðum fyrirtækið var kjörorðið að taka að okkur fá verkefni, en leysa þau framúrskarandi vel af hendi,“ segir Ólafur Örn í samtali við Morgunblaðið.

Hann stofnaði fyrirtækið síðastliðið sumar ásamt Steinari Inga Farestveit og tveimur mánuðum síðar höfðu tveir starfsmenn verið ráðnir.

„Ég get ekki ímyndað mér neitt sem hefði komið sér betur fyrir okkur – svona ungt fyrirtæki – hér á Íslandi en að hreppa þessi verðlaun,“ segir Ólafur Örn.

Helmingurinn erlendar tekjur

Helmingur tekna Form5 kom frá útlöndum á síðasta ári en á meðal viðskiptavina er skíðafyrirtækið Salomon. „Netið er þannig markaðssvæði að það er hægt að vinna allt í fjarvinnu. Í upphafi þessa árs erum við reyndar að vinna mikið fyrir íslensk fyrirtæki“ segir hann.

Vefurinn skiptir æ meira máli við markaðssetningu og telur hann að veffyrirtæki muni fara í tvær áttir. Annars vegar muni veffyrirtæki með ólíkar áherslur sameinast og veita í raun alla þá þjónustu sem þarf í veflausnir og vefmarkaðsherferðir.

Hins vegar muni spretta fram ótal minni sérhæfð fyrirtæki, líkt og Form5. „Það er nefnilega orðið svo auðvelt að púsla saman mismunandi teymum til að ná sem mestum árangri,“ segir Ólafur Örn, og nefnir að spennandi verði að fylgjast með því hvernig stóru auglýsingastofurnar muni haga sínum málum til að þjónusta viðskiptavini sína með vefmarkaðsherferðir og annað slíkt. „Þær hafa í síauknum mæli þurft að útvista verkefnum tengdum stafrænum markaðsherferðum,“ segir hann.

- Hvers vegna sinna þær þessum málum ekki innan dyra hjá sér?

„Þar komum við aftur að spurningunni um sérhæfingu. Til að skapa eitthvað einstakt er sérhæfing nauðsynleg. Stærri fyrirtæki eins og auglýsingastofur sem reka jafnframt vefhönnunardeild og selja þá þjónustu munu ekki ná sama árangri og fyrirtæki sem eru alfarið sérhæfð í vefhönnun. Vinnan er svo sérhæfð og kallar á afar sérhæft starfsfólk.“

- Er draumurinn að afla frekari verkefna erlendis?

„Já, vörumerkið okkar sem og heimasíðan eru á ensku. Við höfum jafnframt sinnt eigin vöruþróun og það er því borðleggjandi að herja á erlenda markaði með hana. Því fylgir í raun enginn viðbótarmarkaðskostnaður í fyrstu við að selja erlendis. Það er ekki fyrr en umsvifin eru orðin meiri.“

Dæmd af verkum sínum

- Er ekki erfitt að fá viðskipti erlendis?

„Fyrirtæki eru dæmd af verkum sínum. Það getur til dæmis skapað mörg tækifæri þegar erlendar fagsíður fjalla um verkefnin.“

- Verjið þið miklum tíma í markaðsmál?

„Það er hluti af okkar vinnu. Eftir hádegi á föstudögum vinnum við fyrir okkur sjálfa en ekki viðskiptavini í útseldri vinnu. Sinnum þá kynningarmálum eða verkefnum sem við sjálfir viljum sinna, t.d. þróa ýmsar tæknilausnir. Það hefur svo hjálpað okkur við að vinna fyrir viðskiptavini seinna meir, því þá notum við oft tæknilausnir sem þróaðar hafa verið á föstudögum.“

Frétt mbl.is: Ætla sér langt með stafrænar vörur

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK