Vilja leggja niður Íbúðalánasjóð

Verkefnastjórn um framtíðarskipan húsnæðismála leggur til að starfsemi Íbúðalánasjóðs verði lögð af í núverandi mynd og umsýsla lánasafns og skuldbindinga hans verði sett í sérstakan farveg. Þetta herma heimildir mbl.is.

Í tillögum verkefnastjórnarinnar, sem kynntar verða opinberlega síðar í dag, er jafnframt lagt til að stofnað verði sérstakt húsnæðislánafélag með aðkomu ríkisins þar sem áhersla verði lögð á að jafnvægi ríki á milli greiðsluflæðis húsnæðislána og fjármögnunar þeirra.

Telur verkefnastjórnin að aðkomu ríkisins að slíku fyrirkomulagi mætti tryggja með stofnun hlutafélags sem veiti almenn húsnæðislán á markaðsvöxtum án ríkisábyrgðar.

Tillögurnar byggja meðal annars á skýrslu félaganna Analytica, EC Consulting og KPMG sem var unnin að beiðni verkefnastjórnarinnar.

Húsnæðislánakerfi að danskri fyrirmynd

Í skýrslunni var gert ráð fyrir því að nýtt húsnæðislánakerfi yrði að dansrki fyrirmynd. Lögðu skýrsluhöfundar til að verulegar breytingar yrðu gerðar á starfsemi Íbúðalánasjóðs og hann lagður niður í núverandi mynd.

Í skýrslu sinni taldi Analytica ekki ráðlegt að Íbúðalánasjóður viðhaldi starfsemi sinni og var lagt til að sjóðurinn hætti alfarið að veita ný útlán. Tillaga var gerð um að skipta starfsemi sjóðsins í tvo hluta.

Annars vegar í nýja stofnun, Húsnæðisstofnun, sem tæki við félagslegu hlutverki sjóðsins og öðrum veigamiklum þáttum sem snúa að framkvæmd húsnæðisstefnu stjórnvalda. Hins vegar myndi ÍLS annast umsjón með núverandi safni útlána og skulda þar til það væri runnið út eða hugsanlega selt.

Tillögurnar kynntar á ríkisstjórnarfundi í morgun

Tillögur verkefnastjórnarinnar voru kynntar á fundi ríkisstjórnar klukkan 9:30 í morgun.

Verkefnastjórnin var skipuð í samræmi við þingsályktun um aðgerðir vegna skuldavanda heimila á Íslandi sem samþykkt var á Alþingi þann 28. júní síðastliðinn Með samþykki þingsályktunarinnar fól Alþingi ríkisstjórninni að fylgja eftir sérstakri aðgerðaáætlun í tíu liðum til þess að taka á skuldavanda heimila á Íslandi og til að tryggja stöðugleika og gagnsæi á húsnæðislánamarkaði til framtíðar.

Samhliða verkefnastjórninni skipaði Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, því samvinnuhóp um framtíðarskipulag húsnæðismála sem hafði það hlutverk að vera verkefnisstjórninni til ráðgjafar.

Verkefnisstjórninni var falið það verkefni að kanna hvaða fyrirkomulag á fjármögnun almennra húsnæðislána á íslenskum húsnæðislánamarkaði væri hagkvæmast og hvernig slíku fyrirkomulagi yrði komið á.

Jafnframt átti verkefnisstjórnin að skoða hvernig unnt væri að tryggja virkan leigumarkað hér á landi sem og skilvirk félagsleg úrræði fyrir þá sem slíkt þurfa. Í því sambandi ætti hún að kanna með hvaða hætti stjórnvöld gætu sinnt afmörkuðu hlutverki sem fælist í veitingu þjónustu í almannaþágu á húsnæðislánamarkaði.

Verkefnisstjórna skipa þau Soffía Eydís Björgvinsdóttir, án tilnefningar, formaður, Bolli Þór Bollason, án tilnefningar, Esther Finnbogadóttir, tilnefnd af fjármála- og efnahagsráðuneytinu, Benedikt Árnason, tilnefndur af forsætisráðuneytinu, Guðlaugur Þór Þórðarson, tilnefndur af þingflokki Sjálfstæðisflokksins, Elsa Lára Arnardóttir, tilnefnd af þingflokki Framsóknarflokksins og Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, án tilnefningar.

Þau voru skipuð af félags- og húsnæðismálaráðherra þann 9. september síðastliðinn.

Verkefnastjórn um framtíðarskipan húsnæðismála leggur til að starfsemi Íbúðalánasjóðs verði …
Verkefnastjórn um framtíðarskipan húsnæðismála leggur til að starfsemi Íbúðalánasjóðs verði lögð af í núverandi mynd mbl.is/Hjörtur
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK