Segir launin margfalt hærri

Andri Már Ingólfsson, stjórnarformaður Primera.
Andri Már Ingólfsson, stjórnarformaður Primera. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Andri Már Ingólfsson, stjórnarformaður Primera, segir lægstu launin hjá flugfreyjum félagsins sem ráðnar voru á vegum áhafnaleigu á Guernsey vera margfalda þá upphæð sem nefnd var í frétt mbl í gær. Þar var haft eftir formanni Flugfreyjufélags Íslands, Sig­ríði Ásu Harðardótt­ur, að grunnlaunin væru 400 evrur á mánuði, eða um 60 þúsund íslenskar krónur auk þess sem þær fengu pró­sentu af sölu um borð í vél­inni. 

Launakjörin segir hann þó vera trúnaðarmál og ekki til birtingu opinberlega. 

Mbl greindi frá því á dög­un­um að Pri­mera hefði sagt upp samn­ing­um við ís­lenska flugliða flug­fé­lags­ins en hins veg­ar tekið á leigu íbúðir á Ásbrú í Kefla­vík fyr­ir að minnsta kosti sex grísk­ar flug­freyj­ur sem ráðnar voru til starfa sem verktakar á veg­um áhafna­leigu fyrir áramót. Andri segir ástæðu þess að erlendar áhafnir séu notaðar nú að hluta til sé að þær séu hluti af áhöfnum þeirra í París, þar sem flugfélagið er með umfangsmikla starfsemi. Þessum flugliðum hafi verið boðin tímabundin vinna á ´slandi til að halda þeim fram á sumar og viðhalda þjálfun þeirra.

„Áfram verður notast við íslenskar flugfreyjur eins og kostur er að hluta til eins og verið hefur áður,“ bætir hann þá við.

Eðlileg ráðstöfun í hagræðingarskyni

Í síðustu viku var greint frá því í sænsk­um fjöl­miðlum  að flugliðum Pri­mera í Svíþjóð hefði verið sagt upp störf­um en þó verið boðið að halda áfram á þeim kjör­um er kveðið er á um í kjara­samn­ing­um í Lett­landi. Það hefði þýtt 23% launa­lækk­un auk fleiri vinnu­stunda. Andri segir flutning á starfseminni undir lettneskt flugrekstrarleyfi vera ástæðu uppsagnanna og bendir á að unnið hafi verið undir dönsku leyfi fram að þessu. „Það er í hagræðingarskyni og eðlileg ráðstöfun. Margir af þeim aðilum sem hafa unnið fyrir okkur í Stokkhólmi vinna áfram fyrir okkur undir nýju leyfi,“ segir Andri.

Þá bendir hann á að Primera Air sé með starfsemi  í 8 löndum og fljúgi til 80 flugvalla. „Það er mjög eðlileg ráðstöfun að nota áhafnaleigur fyrir hluta af þeirri starfsemi til einföldunar á starfsmannamálum, enda þurfa sumir flugliðar að flytja sig á milli landi eftir verkefnum. Eðli starfseminnar er í grunninn gjörólík venjulegu áætlunarflugfélagi sem flýgur allar sínar ferðir frá sama stað,“ segir Andri.

Tímafrekt að flytja starfsemina

Hann segir flutning starfseminnar til Lettlands þá vera til þess fallinn að samþætta starfsemina og til þess að unnt sé að vinna á mismunandi mörkuðum hafi þurft að koma öllum deildum félagsins á einn stað. „Riga varð fyrir valinu vegna mikils mannauðs þar með reynslu af flugi, hagkvæmu umhverfi, sem og vegna nálægðar við alla megin markaði Primera Air, Stokkhólm, Helsinki, Oslo, Kaupmannahöfn og Billund.“

Krist­inn Örn Jó­hann­es­son, trúnaðarmaður VR hjá Pri­mera Air, hefur bent á að félagið hafi sneitt hjá lögum um hópuppsagnir með því að segja starfsfólkinu upp í nokkrum skrefum þegar legið hafi fyrir að segja þyrfti öllum upp. Andri segir það taka marga mánuði og jafnvel ár að flytja starfsemina og að einungis hafi verið hægt að flytja lítinn hluta starfseminnar í einu til að tryggja rekstraröruggi og stöðugleika starfseminnar. „Þetta hefur ávallt legið fyrir og var kynnt starfsfólki frá byrjun og hefur verið unnið í fullu samráði við starfsfólkið, enda hefur það góða starfsfólk sem hefur unnið fyrir Primera Air leyst þetta af hendi að einstakri ræktarsemi og fagmennsku og hefur engin skuggi fallið þar á og kann Primera Air þeim miklar þakkir fyrir frábær störf,“ segir Andri.

Primera Air hefur fengið flugrekstrarleyfi í Lettlandi.
Primera Air hefur fengið flugrekstrarleyfi í Lettlandi.
Primera tók á leigu íbúðir fyrir grísku flugfreyjurnar á Ásbrú.
Primera tók á leigu íbúðir fyrir grísku flugfreyjurnar á Ásbrú. Af Flickrsíðu Keilis
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK