„Það er ljós við enda ganganna“

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármálaráðherra, á fundi í Valhöll …
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármálaráðherra, á fundi í Valhöll í dag.

Afnámsáætlun hafta gæti orðið til þess að skuldir ríkisins lækkuðu um a.m.k. 30%, en því til viðbótar eru tækifæri til að lækka skuldirnar enn frekar. Þetta sagði Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, á fundi í Valhöll í gær. Benti hann meðal annars til sölu á um helmingshlut í Landsbankanum og gengishagnað við aflandskrónuútboð í haust sem möguleika fyrir ríkissjóð til að minnka skuldir sínar.

Allt of stór hluti í vaxtagreiðslur

Bjarni sagði að undanfarin ár hefði ríkisstjórnin unnið að því að keyra niður ríkisútgjöld sem hlutfall af landsframleiðslu og hefði tekist það. Meðal annars hefði tekist að skila góðum afgangi í fyrra og þá spáði hann því að afgangurinn á þessu ári yrði meiri en áætlanir gerðu ráð fyrir.

Hann sagði þennan afgang þó duga skammt til að greiða niður skuldir sem ætti að vera forgangsmál hjá Íslendingum. Benti hann á að þrátt fyrir að Íslendingar væru með mun lægri skuldastöðu en Grikkir, þá værum við að borga mun stærri hluta í vexti en þeir. Það væri því allt of stór hluti ríkisútgjalda sem færi aðeins í slíkar greiðslur og það hjálpaði ekkert við uppbyggingu innviða.

Selja hlut í Landsbankanum og nýta gengishagnað

Sagði Bjarni að hann hefði meðal annars viðrað að selja hlut í Landsbankanum, en í dag á ríkið tæplega 98% í bankanum. Sagðist hann horfa til þess að hlutur ríkisins væri áfram um 40%, en að sala á rúmlega 50% hlut myndi skila ríflega 100 milljörðum sem mætti nota til að greiða niður skuldirnar. Þá sagði hann aflandskrónuuppboðið í haust einnig bjóða upp á tækifæri og að gengi í síðustu útboðum og viðskiptum á aflandskrónumarkaði gæfi væntingar um að gengishagnaður ríkisins eftir uppboðið yrði allt að 150 milljarðar.

Með niðurgreiðslu á skuldum af þessari stærðargráðu ætti að skapast rétt skilyrði hér á landi eftir eitt til tvö ár til að draga úr gjaldeyrisvaraforðanum, en Bjarni sagði hann mjög stóran í dag. Með þeim fjármunum mætti svo draga enn frekar úr skuldum hins opinbera.

Vill byggja upp sjóði með arðgreiðslum úr Landsvirkjun

Íslendingar þekkja að reglulega geta áföll og náttúruhamfarir dunið yfir og sagði Bjarni að í því samhengi væri mikilvægt að hafa greitt niður skuldir þegar betur árar og vera viðbúinn hinu óvænta. Meðal annars horfði hann til þess að byggja upp sjóði og vera með litla skuldaklafa á ríkissjóði. Þannig væri meðal annars hægt að horfa til þess að nýta arðgreiðslur úr Landsvirkjun til að safna upp sjóði sem gæti á stuttum tíma orðið nokkuð stór.

„Það er algjörlega búið að snúa við blaðinu

„Það er algjörlega búið að snúa við blaðinu og það er ljós við enda ganganna,“ sagði Bjarni um stöðuna í dag og ítrekaði að hann stæði við orð sín um að útlitið hefði sjaldan verið bjartara. Þrátt fyrir verkföll og slæmar fréttir af makrílveiðum, þá væru jákvæðar fréttir af þorskstofnum, ferðaþjónustan væri að slá hvert metið á fætur öðru og orkufrekur iðnaður og orkuframleiðsla væru í góðum málum. „Þegar grunngreinarnar þrjár eru í góðri stöðu, þá er bjart yfir,“ sagði Bjarni og bætti við að atvinnustig væri hátt og við værum að ná tökum á greiðslujöfnuði.

Hann tók þó sérstaklega fram að framtíðin væri undir ákvörðunum komin og það væri mannanna verk að spila úr stöðunni. Sagði hann helsta verkefnið að tryggja viðvarandi stöðugleika og að breyta vinnumarkaðsmódelinu sem væri orðið úr sér gengið. Sagði hann vinnumarkaðinn verða að koma með sveitarfélögum og ríki ef það ætti að takast að skapa stöðugleika og lægra vaxtastig hér á landi.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK