Stjórnendur bjartsýnir á árið 2016

Birkir Hólm Guðnason, forstjóri Icelandair.
Birkir Hólm Guðnason, forstjóri Icelandair. mbl.is/Árni Sæberg

Árið 2015 stóð að mörgu leiti undir væntingum þar sem átök á vinnumarkaði settu þó mark sitt á árið. Voru átökin harðari en sést hafa í langan tíma og höfðu neikvæð áhrif. Þrátt fyrir þetta hefur stöðugleiki á verðlagi verið sögulegur. Þetta segir Finnur Árnason, forstjóri Haga, þegar hann er beðinn að gera upp árið sem nú er nýliðið. Eru þeir Jón Ólafur Halldórsson, forstjóri Olís og Birkir Hólm Guðnason, forstjóri Icelandair, sammála Finni og segja einnig að árið 2015 hafi staðið undir væntingum og vísa til uppgangs í ferðaþjónustu og sjávarútvegi.

Meiri ferðahugur kominn í landann

Finnur segir að eitt af jákvæðu atriðum þessa árs hafi verið sú niðurstaða að slitum á búum föllnu bankanna sé senn að ljúka og að ríkissjóður muni njóta góðs af  því. Birkir segir að það hafi verið einkennandi að meiri ferðahugur sé kominn í landann, bæði almenning og viðskiptalífið. Þá hafi hríðlækkandi eldsneytisverð sett svip á árið.

Finnur Árnason, forstjóri Haga.
Finnur Árnason, forstjóri Haga. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Jón  segir árið sem var að líða hafa einkennst af bjartsýni og uppgangi og að mikill kraftur sé í atvinnulífinu. Hann segist aftur á móti telja að almenningi sé ekki ljóst hvaða áhrif efnahagsþvinganir gegn Rússlandi geti haft hér á landi á sjávarútveginn og þar af leiðandi afkomu þjóðarbúsins.

Efnahagsstaða nágrannaríkja lofar góðu

Varðandi horfurnar á nýju ári segir Birkir að Icelandair hafi þegar kynnt áætlun um 18% vöxt leiðarkerfisins á árinu og segist hann bjartsýnn að það gangi vel. „Ég hef ekki ástæðu til annars en vera bjartsýnn á komandi ár. Við vitum að margir utan að komandi og óviðráðanlegir þættir, eins og hryðjuverk eða efnahagsmál á heimsvísu geta haft mikil og skjót áhrif á rekstrarumhverfi flugfélaga, en þá gildir að geta brugðist hratt við. En staða efnahags- og atvinnumála bæði hér heima og á okkar helstu mörkuðum í Norður-Ameríku og Evrópu lofar heilt yfir góðu,” segir Birkir.

Forgangsröðun nauðsynleg og heilbrigðiskerfið í forgrunni

Jón segir eitt af stóru verkefnunum framundan tengjast rekstri ríkisins. Þannig þurfi að forgangsraða og ræða hagræðingu á rólegum nótum. „Fjárfestingar eru að vaxa og mikilvægt að ríkið haldi aftur af sér á sama tíma og innviðir þurfa að styrkjast.  Það er mikilvægt að halda áfram að styrkja heilbrigðiskerfið og bygging á nýjum spítala þarf að komast í réttan farveg.  Ríkið þarf auka hagkvæmni í sínum rekstri  og hjá stofnunum með sama hætti að fyrirtæki landsins eru að gera  og það verður að ræða það án þess að það fari allt á annan endann. Ríkið þarf að forgangsraða í sínum rekstri og í mínum huga eru það heilbrigðismálin sem þurfa að vera í forgrunni,“ segir Jón.

Jón Ólafur Halldórsson, forstjóri Olís.
Jón Ólafur Halldórsson, forstjóri Olís.

Finnur segir að auðvitað sé alltaf hægt að benda á eitthvað á árinu sem var að líða sem hægt sé að nöldra yfir „en heilt yfir var þetta gott ár.“ Hann telur horfurnar í ár vera góðar og að með stöðugleika séu allar forsendur fyrir hendi fyrir enn meiri kaupmáttaraukningu, hagvexti og lækkun skulda ríkisins. „Því ætti 2016 að verða gott ár,“ segir Finnur að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK