Óvissan helsta áhyggjuefnið

Arnór Sighvatsson aðstoðarseðlabankastjóri, Már Guðmundsson seðlabankastjóri og Þórarinn Pétursson, aðalhagfræðingur …
Arnór Sighvatsson aðstoðarseðlabankastjóri, Már Guðmundsson seðlabankastjóri og Þórarinn Pétursson, aðalhagfræðingur seðlabankans. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Arnór Sighvatsson, aðstoðarseðlabankastjóri, segir óvissuna eftir ákvörðun Breta um að segja skilið við Evrópusambandið skipta mestu máli. Áhrifin á landsframleiðslu hér á landi verði kannski ekki stórvægileg en langtímaáhrifin ráðist af framtíðarsambandi Breta við Evrópusambandið.

„Þetta hefur áhrif á okkar útflutningstekjur og tekjur af útflutningi til Bretlands verða að líkum minni,“ segir Arnór og bætir við að áhyggjurnar eigi sérstaklega við í ferðamennsku. „Bretar hafa verið talsvert sterkir þar og þá meðal annars í vetrarferðum og þetta skapar mikla óvissu. Það er þó mjög erfitt að meta hversu mikil áhrifin verða,“ segir hann.

Spurður um möguleg áhrif á íslenska bankakerfið bendir hann á að í kjölfar hrunsins séu bankarnir ekki eins alþjóðlega tengdir og alþjóðleg fjármögnun sé ekki eins mikil og hún annars hefði verið. „Það má segja að það sé lán í óláni,“ segir Arnór.

Seðlabankinn hefur lagt mat á möguleg áhrif úrsagnarinnar og gefið út minnisblað um efnið. Arnór segir að tekið hafi verið mið af mati Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Hins vegar gætu ýmis atriði vegið þyngra og bendir hann þá aftur á ferðaþjónustuna. 

Bankarnir eru ekki mjög alþjóðlega tengdir eftir hrun.
Bankarnir eru ekki mjög alþjóðlega tengdir eftir hrun. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Landsframleiðsla dregst saman

Í mati OECD á úrsögn Breta úr ESB er gert ráð fyrir að formleg útganga eigi sér stað seint á árinu 2018. Samningaviðræður Breta um tollamál við ESB hefjist í kjölfarið og standi yfir á tímabilinu 2019 til 2023.

Niðurstöður mats OECD eru þær að landsframleiðsla í Bretlandi verði rúmlega þremur prósentustigum minni árið 2020 en ef Bretar væru áfram í ESB. Til lengri tíma verði landsframleiðslan fimm prósentustigum minni. 

Neikvæð áhrif á viðskiptakjör

Á síðasta ári fluttu Íslendingar vörur til Bretlands fyrir tæplega 73 milljarða króna, eða sem nam tæplega tólf prósentum af vöruútflutningi ársins. Bretlandsmarkaður er einkum mikilvægur fyrir sjávarútveginn en þangað voru fluttar út sjávarafurðir fyrir um 48,5 milljarða króna í fyrra eða sem nemur 18,3 prósentum af öllum sjávarvöruútflutningi ársins 2015.

Hlutdeild Bretlands í þjónustuútflutningi er heldur minni eða tæplega tíu prósent árið 2014.

Að sögn Seðlabankans er erfitt að segja til um heildaráhrifin á viðskiptakjör en þó verða þau líklega neikvæð.

Breska pundið hefur hríðfallið í morgun.
Breska pundið hefur hríðfallið í morgun. AFP

Pundið 10% lægra um mitt ár

Pundið hefur hríðfallið í morgun og hefur gengi þess ekki verið lægra í áratugi. Í mati OECD er gert ráð fyrir að pundið muni lækka um tíu prósentustig gagnvart Bandaríkjadal um mitt árið en að það styrkist nokkuð aftur, verði sex prósentustigum lægra árið 2017 en það er í dag og fjórum prósentustigu lægra frá árinu 2018.

Beinustu áhrifin á íslenskan þjóðarbúskap af gengislækkun pundsins verða lægra verð en ella í krónum fyrir íslenskan útflutning til Bretlands. Hin hliðin á gengislækkun pundsins gagnvart öðrum alþjóðlegum myntum er hins vegar hækkun á þeim myntum. Það ætti að skila sér í að verð útflutnings til þeirra myntsvæða verður hærra en ella í íslenskum krónum.

Þannig er því ekki gefið að gengislækkun pundsins muni hafa neikvæð áhrif á viðskiptakjör landsins þótt væntanlega hafi hún neikvæð áhrif á afkomu þeirra fyrirtækja sem selja til Bretlands. Þar sem formleg útganga Breta tekur gildi með einhverri töf ættu útflytjendur þó að hafa ráðrúm til að beina viðskiptum sínum á aðra markaði telji þeir það hagkvæmara.

Pundið er um 15% af gjaldeyrisforða

Gengisfallið gæti einnig haft nokkur áhrif á Seðlabankann en gjaldeyrisforði bankans samanstendur í megindráttum af Bandaríkjadollar, evru, pundi og jeni. Vegur þar pundið að jafnaði fimmtán prósent af gjaldeyrisáhættu bankans en dollar og evra fjörutíu prósent hvert um sig.

Hins vegar á dreifð gjaldmiðlaeign og góð lausafjárstaða að gera Seðlabankann vel í stakk búinn til þess að takast á við mögulegar neikvæðar hliðarverkanir vegna Brexit á fjármálamarkaði eða greiðslumiðlun.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK