Pundið ekki lægra í áraraðir

Pundið hríðfellur.
Pundið hríðfellur. AFP

Breska pundið er enn í frjálsu falli og hefur ekki verið jafnlágt gagnvart íslensku krónunni síðan 2009. Í dag kostar eitt pund 165 íslenskar krónur en á föstudag kostaði það rúmar 180 krónur. Fyrir akkúrat ári kostaði pundið 211 krónur. 

Sterlingspundið hefur hríðfallið frá því að Bretar ákváðu að yfirgefa Evrópusambandið og er það í 31 árs lágmarki gagnvart dollaranum í dag. Hlutabréf breskra fyrirtækja falla einnig hratt og var tímabundið lokað fyrir viðskipti á bréfum bankanna Barclay's og Royal Bank of Scotland (RBS). Ástandið minnir helst á fjármálahrunið og hefur gengi bréfa RBS til að mynda ekki verið lægra síðan 2009 þegar skattgreiðendur björguðu bankanum frá gjaldþroti. Í samtali við BBC segir sérfræðingur að óvissa í breskum stjórnmálum valdi þessu. 

Hlutabréf breskra félaga eru í frjálsu falli.
Hlutabréf breskra félaga eru í frjálsu falli. AFP

Lokað fyrir bankana í kauphöllinni

Lokað var fyrir viðskipti með RBS og Barclays þegar bréfin féllu um átta prósentustig í morgun. Þegar viðskipti hófust síðan á nýjan leik hélt lækkunin áfram og nemur um tíu prósentum hjá Barcleys en þrettán prósentum hjá RBS.

Þá hafa hlutabréf breska flugfélagsins easyJet einnig fallið um átján prósentustig eftir að stjórnendur félagsins uppfærðu afkomuspá félagsins á þann veg að búist er við minni hagnaði í kjölfar ákvörðunar þjóðarinnar um Brexit.

Áhrifa Brexit á atvinnulífið gætir víða en í könnun sem bresku stjórnendasamtökin „The Institute of Directors“ gerðu á meðal eitt þúsund félagsmanna sinna kom í ljós að um fjórðungur ætlaði að setja á ráðningarbann í fyrirtæki sínu. Um þriðjungur ætlar að halda áfram ráðningum í sama takti og um fimm prósent stjórnenda sögðust þurfa að grípa til uppsagna. Tæplega sjötíu prósent stjórnenda sögðu að niðurstaðan kæmi fyrirtæki sínu illa.

Brexit mun hafa mikil áhrif á atvinnulífið.
Brexit mun hafa mikil áhrif á atvinnulífið. AFP

Áframhaldandi lækkanir á Íslandi

Íslenski hlutabréfamarkaðurinn fylgdi þróuninni erlendis á föstudaginn og hefur það haldið áfram í dag. Úrvalsvísitalan hefur fallið um 2,86 prósentustig og líkt og á föstudaginn er mesta lækkunin hjá Icelandair en hlutabréf félagsins hafa fallið um 4,19 prósentustig í dag. Þar á eftir kemur Marel en lækkun þeirra nemur um 2,76 prósentustigum. Bæði félögin hafa sterka tengingu við útlönd og skýrist mikil lækkun af því.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK