Isavia: Engar geðþóttaákvarðanir

Guðni Sigurðsson, talsmaður Isavia.
Guðni Sigurðsson, talsmaður Isavia.

Guðni Sigurðsson, talsmaður Isavia, segir að Kaffitár hafi fengið afhent öll þau gögn sem fyrirtækið óskaði eftir í kröfugerð sinni sem lögð var fyrir úrskurðarnefnd um upplýsingarmál. Verður annað ekki látið af hendi nema í gegnum formlegar leiðir.

Aðalheiður Héðinsdóttir, eigandi Kaffitárs, hefur kvartað undan því að hafa ekki fengið gögn úr forvalinu í samkeppni um verslunarrými í Leifsstöð. Í samtali við mbl. vísar Guðni til upphaflegrar kröfugerðar Kaffitárs er segir að annars vegar sé beðið um rökstuðning fyrir einkunnum í seinni hluta útboðsferlis Isavia og hins vegar tilboð annarra þátttakenda í seinni hluta útboðsins.

Kröfugerðin sem Guðni segir að Isavia styðjist við.
Kröfugerðin sem Guðni segir að Isavia styðjist við. Mynd/Isavia

Ljóst er að fyrirtækin eru ósammála um það til hvaða gagna úrskurður Héraðsdóms tekur en Aðalheiður sagðist í samtali við mbl. fyrr í dag ætla að leita til sýslumanns á morgun ef framangreind gögn skiluðu sér ekki.

„Ef beðið verður um eitthvað úr fyrri hlutanum verður tekin afstaða til þess og það mun þurfa að fara í gegnum sitt ferli á vef okkar þar sem óskað er eftir upplýsingum á grundvelli upplýsingalaga,“ segir Guðni. Hann segir seinni hluta keppninnar vera aðalmálið og bætir við að Kaffitár hafi komist upp úr fyrri hlutanum. Keppnin hafi einungis staðið á milli þeirra sem komust áfram.

Ekki meginmarkmið að fá alþjóðleg fyrirtæki

Gögnin sem Isavia sendi í samræmi við kröfugerðina.
Gögnin sem Isavia sendi í samræmi við kröfugerðina. Mynd/Isavia

Í samtali við mbl. í dag gagnrýndi Aðalheiður Isavia fyrir að hafa ekki getið þess í kröfulýsingu fyrir samkeppnina að eitt meginmarkmið keppninnar væri „að fá öfl­ug, alþjóðleg fyr­ir­tæki í rekst­ur á versl­un­um og þjón­ustu á frí­hafn­ar­svæðinu“, líkt og segir í greinargerð Isavia sem lögð var fyrir Héraðsdóm. Sagðist hún hefðu sleppt þessu „veseni“ ef þetta hefði legið fyrir.

Guðni tekur fyrir að þetta hafi verið meginmarkmið keppninnar og segir að þetta sé nefnt í því samhengi að um hafi verið að ræða alþjóðlega samkeppni sem erlendum aðilum bauðst að taka þátt í. „Ég veit ekki af hverju þetta er orðað svona en meiningin í þessu var að fá alþjóðleg fyrirtæki til að sækja um,“ segir hann.

Að lokum segir Guðni að hvorki Isavia né aðrir í dómnefndinni hafi haft ástæður eða forsendur til að taka geðþóttaákvarðanir í málinu heldur hafi allar umsóknir verið metnar faglega.

Frétt mbl.is: Gáttuð á vinnubrögðunum

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK