Handtóku yfirmann hjá Volkswagen

Svindl Volkswagen hefur dregið dilk á eftir sér.
Svindl Volkswagen hefur dregið dilk á eftir sér. AFP

Bandaríska alríkislögreglan hefur handtekið stjórnanda hjá bílaframleiðandanum Volkswagen en hann er sakaður um að hafa tekið þátt í að falsa útblásturspróf hjá dísel­vélum framleiðandans. Maðurinn heitir Oliver Schmidt og hefur starfað hjá Volkswagen frá árinu 1997. Hann var yfirmaður hjá Volkswagen í Bandaríkjunum árið 2014 og 2015 og var handtekinn um helgina.

Í ákæru er Schmidt sakaður ásamt öðrum ónefndum starfsmanni Volkswagen um að skipuleggja að blekkja neytendur og villa fyrir rannsakendum.

Í tilkynningu Volkswagen til CNN kemur fram að fyrirtækið heldur áfram að vinna með dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna við rannsókn málsins sem komst upp árið 2014.

Það voru vísindamenn við háskólann í Vestur-Virgínu sem áttuðu sig á því að Volkswagen notaði sérstakan hugbúnað í vélum díselbifreiða sinna til þess að svindla á útblástursprófunum.

Í september 2015 viðurkenndi Volkswagen að hafa átt við hálfa milljón bíla í Bandaríkjunum og 11 milljónir bíla um allan heim til þess að komast í kringum reglugerðir. Fyrirtækið samþykkti að greiða 14,7 milljarða í skaðabætur til þess að ná sáttum, aðallega til eigenda bílanna.

Málið hefur dregið dilk á eftir sér og í nóvember tilkynnti Volkwagen að það þyrfti að leggja niður 30.000 störf vegna gríðarlegra útgjalda í tengslum við málið. Flest störfin, eða 23.000 eru í heimalandi fyrirtækisins, Þýskalandi. 610.000 manns starfa hjá Volkswagen um allan heim.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK