Gréta María ráðin forstjóri yfir gjörbreytt félag Heimkaupa

Gréta María Grétarsdóttir, nýr forstjóri Heimkaupa.
Gréta María Grétarsdóttir, nýr forstjóri Heimkaupa. mbl.is/Hallur Már

Gréta María Grétarsdóttir hefur verið ráðin forstjóri Heimkaupa. Fyrr í dag var tilkynnt að hún hefði sagt upp störfum hjá ferðaþjónustufyrirtækinu Arctic Adventure. Gréta María var sem kunnugt er framkvæmdastjóri Krónunnar á árunum 2018-2020.

Í tilkynningu frá Heimkaupum kemur fram að rekstur félagsins verði í breyttri mynd þar sem Heimkaup hafa keypt allar einingar sem snúa að verslunarrekstri Orkunnar. Þar undir falla níu verslanir undir merkjunum 10-11, Extra og Orkunnar, sjö apótek Lyfjavals, átta bakarí Brauð & Co. auk veitingarekstur Gló og eignarhlutur í Clippers, sem rekur Sbarro.

Samanlögð velta allra félaga innan samstæðunnar er áætluð um 11-12 milljarðar á þessu ári og mun sameinað félag hefja starfsemi þann 1. júlí 2023. Stærstu hluthafar Heimkaupa eftir þessar breytingar verða SKEL, Orkan, sem er dótturfélag SKEL, og Norvik.

„Ég er afar stolt af því að fá tækifæri til að leiða þetta nýja afl á smásölumarkaði sem verður til með sameiningu þessara félaga. Vörumerkin eru margvísleg og hafa öll sína styrkleika og með því að setja þau undir sama hatt verður hægt að ná fram auknum slagkrafti og hagkvæmni. Við munum svo á næstu misserum kynna til leiks spennandi nýjungar á smásölumarkaði,“ segir Gréta María í tilkynningunni.

Jón Ásgeir Jóhannesson, stjórnarformaður SKEL og stjórnarmaður í Heimkaupum, segir að hann telji að mikil tækifæri séu til staðar á smásölumarkaði fyrir nýjan aðila með skýrar áherslur og sterkt bakland.

„Að félaginu standa hluthafar með mikla reynslu af smásölu og verslunarrekstri og við ætlum okkur stóra hluti með þetta félag. Það er frábært að fá Grétu Maríu til liðs við okkur með sína reynslu og þekkingu og gefur okkur byr undir báða vængi. Við viljum auka samkeppni, með tilheyrandi ávinningi fyrir neytendur,“ segir Jón Ásgeir.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK