Blair segir að það hafi verið slæm hugmynd að leyfa sjóliðunum að selja sögur sínar

Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, segir nóg komið af sjóliðamálinu og …
Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, segir nóg komið af sjóliðamálinu og nú sé kominn tími til að halda áfram. Reuters

Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, viðurkenndi í gær að það hefði verið slæm hugmynd að leyfa bresku sjóliðunum 15 að selja fjölmiðlum sögur sínar. Það þykir þó ólíklegt að hann muni reka háttsetta embættismenn vegna málsins.

Des Browne, varnarmálaráðherra Bretlands, sagðist í gær axla fulla ábyrgð á þeirri ákvörðun leyfa breskum hermönnum að selja sögur sínar sem varð til þess að sjóliðarnir 15, sem voru teknir höndum í Íran, hafi selt fjölmiðlum sínar sögur fyrir dágóða summu.

Blair, sem tjáði sig í fyrsta sinn opinberlega um málið, sagði að yfirmenn sjóhersins hafi aðeins verið að reyna að ná tökum á þeim mikla áhuga sem fjölmiðlar sýndu málinu þegar þeir samþykktu að leyfa sjóliðunum að þiggja greiðslur fyrir sögur sínar.

„Sjóherinn var að reyna að takast á við afar sérstakt ástand þar sem fjölmiðlarnir eltust við fjölskyldurnar í þeim tilgangi að fá þær til þess að selja sínar sögur,“ sagði Blair.

„Sjóherinn tók þá afstöðu að það væri betra að reyna ná stjórn á ástandinu í stað þess að láta hlutina gerast af sjálfu sér. Nú þegar litið er til baka, var þetta góð hugmynd? Nei,“ sagði Blair.

„Er ég á þeirri skoðun að þetta muni gerast aftur? Nei. En var þetta allt gert í góðri trú og af heiðarleika, þ.e. hvað varðar sjóherinn? Já, það var svo. Ég tel að við höfum fengið nóg af þessu á undanförnum dögum að nú sé tími til að horfa fram á veginn.“ Stjórnarandstæðingar hafa sagt að ákvörðunin um að leyfa sjóliðunum að selja sögur sínar og hagnast á þeim sé hið vandræðalegasta fyrir breska herinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert