Richard Branson ekki í Casino Royale um borð í vélum British Airways

Richard Branson, eigandi Virgin Group
Richard Branson, eigandi Virgin Group Reuters

Flugvélagið British Airways hefur tekið ákvörðun um að klippa auðkýfinginn Richard Branson út úr James Bond kvikmyndinni Casino Royale í þeirri útgáfu sem sýnd er um þessar mundir um borð í flugvélum félagsins. Branson, sem rekur Virgin Atlantic flugfélagið, kemur fram í örhlutverki, en flugvél merkt Virgin var einnig klippt út úr myndinni.

British Airways er samkvæmt samningi heimilt að klippa út efni sem ritskoðendum þykir smekklaust eða ósæmilegt.

Talsmaður Virgin, Paul Charles segir að það sé vissulega leiðinlegt að forsvarsmönnum flugfélagsins hafi þótt þörf á ritskoðuninni, bendir hann á að þegar kvikmyndin Die Another Day var sýnd um borð í flugvélum Virgin, hafi flugvélar British Airways ekki verið klipptar út.

Samskipti flugfélaganna hafa verið afar stirð eftir að Virgin lét breskum og bandarískum stjórnvöldum í té upplýsingar um verðsamráð sem varð til þess að hafin var rannsókn á starfsháttum British Airways.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert