Rússar ósáttir við samkomulag Bandaríkjamanna og Tékka

Rússar segja að þeir neyðist til að bregðast við ef Bandaríkin og Tékkar standa við fyrirhugaða uppsetningu eldflaugavarnarkerfis í Tékklandi. Yfirlýsing rússneskra stjórnvalda var birt nokkrum klukkustundum eftir að utanríkisráðherrar Bandaríkjanna og Tékklands undirrituðu viljayfirlýsingu um uppsetningu eldflaugavarnarkerfis Bandaríkjamanna í Tékklandi.

Rússnesk stjórnvöld segja uppsetningu kerfisins nálægt landamærum Rússlands geti veikt varnir landsins. Rússar eru andsnúnir því að Bandaríkin fái að setja upp eldflaugavarnarkerfi í Póllandi og Tékklandi þar sem því verði væntanlega beitt gegn Rússum síðar. Bandaríkin segja hins vegar að kerfinu sé ætlað að verjast langdrægum flaugum frá Miðausturlöndum, einkum Íran.

Í samkomulaginu sem var undirritað í Prag í dag er veitt heimild fyrir því að bandarísk stjórnvöld setji upp ratsjárstöðvar á tékknesku yfirráðasvæði, samkvæmt frétt BBC. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert