Lýst yfir hættuástandi í Texas

George W. Bush Bandaríkjaforseti lýsti yfir hættuástandi í Texas vegna fellibyljarins Ike sem stefnir að sambandsríkinu. Yfirvöld í Texas fyrirskipuðu íbúum byggðarlaga við ströndina að forða sér af hættusvæðinu áður en óveðrið skellur á.

Með því að lýsa yfir hættuástandi í Texas greiðir forsetinn fyrir því að yfirvöld í Texas fái aðstoð frá alríkisstofnunum. Gert er ráð fyrir því að Ike magnist og verði að hættulegum fellibyl í Mexíkóflóa áður en hann kemur að strönd Texas aðfaranótt laugardags. Ríkisstjóri Texas lýsti yfir hættu á miklum náttúruhamförum í 88 sýslum.

Ike hefur kostað yfir 100 manns lífið á eyjum í Karíbahafi. Að minnsta kosti fjórir menn létu lífið af völdum fellibyljarins á Kúbu eftir að 2,6 milljónir landsmanna flúðu af svæðum sem voru í mestri hættu.

Hundruð manna hafa farist af völdum fellibylja og hitabeltislægða á Haítí á einum mánuði.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert