Slátra nautinu ef Obama vinnur

Barack Obama.
Barack Obama. Reuters

Allir þorpsbúar í Kogelo, í vesturhluta Kenýa, með tölu eru á bandi Obamas í kvöld. Hyggjast þeir halda upp á sigurinn, fari svo að hann vinni, á táknrænan hátt með því að slátra nauti. Barack Obama eldri, faðir forsetaframbjóðandans, á rætur að rekja til þorpsins, sem telur aðeins um þúsund íbúa.

Í Afríku er dýrum iðulega slátrað til hátíðabrigða.

Reikna má með að fjölmenni verði vitni að hátíðinni, að því gefnu að hún snúist ekki upp í vonbrigði, enda hafa erlendir blaðamenn streymt að þorpinu að undanförnu, í leit að bakgrunnsefni um demókratann vinsæla.

Að sögn Davids McKenzies, blaðamanns CNN í Kenýa, eru vinsældir Obamas í landinu slíkar, að í höfuðborginni Nairobi má finna sjónræningadiska til sölu með upptökum um frambjóðandann á CNN.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert