Barnungra bræðra gæti beðið lífstíðarfangelsi

RICHARD LEWIS

Tveir ungir breskir drengir gætu endað ævi sína bak við lás og slá sökum alvarlegrar líkamsárásar þeirra gegn tveimur jafnöldrum sínum. Frá þessu er greint á vef breska ríkisútvarpsins og á vef danska dagblaðsins Berlingske Tidende. 

Drengirnir tveir, sem eru bræður og aðeins 10 og 12 ára gamlir, réðust að tveimur öðrum drengjum sem eru 9 og 11 ára. Bræðurnir stöðvuðu drengina tvo á förnum vegi og heimtuðu að fá farsíma þeirra, íþróttaskó sem þeir klæddust og þá peningar sem þeir voru með á sér, alls 5 pund. Þegar drengirnir tveir neituðu að verða við kröfu þeirra réðust bræðurnir á þá með steinum, brenndu þá með logandi sígarettum, m.a. á augnlokum þeirra, og neyddu drengina til þess að taka þátt í kynferðislegum athöfnum. 

Áður en 11 ára drengnum var hrint niður bratta brekku var hann laminn í höfuðið með eldhúsvaski. Bræðurnir settu snöru utan um hálsinn á níu ára piltinum og skáru í handleggi hans með beittum hlut sem þeir í framhaldinu þvinguðu hann til þess að gleypa í von um að það myndi verða honum að aldurtila. 

„Ég hélt að ég myndi deyja,“ er haft eftir 9 ára drengnum.

Árásin átti sér stað í apríl sl. en það er fyrst núna sem málið kemst í hámæli, en það heglast af því að nú er verið að rétta yfir bræðrunum tveimur í Sheffield Crown Court. Málið hefur vakið upp mikla reiði í Bretlandi og hefur umræðan ekki síst snúist um það hver beri ábyrgð á því að svona illa hafi farið og hvernig beri að hegna drengjunum fyrir hegðun þeirra. 

Samkvæmt breskum lögum eru 10 ára börn sakhæf. Upphaflega stóð til að saksækja bræðurna fyrir morðtilraun, en fallið var frá því eftir að þeir viðurkenndu aðild sína að alvarlegri líkamsárás. Verði þeir fundnir sekir gæti beðið þeirra lífstíðarfangelsi. Athygli vakti að þegar kæran var lesin upp í réttarsalnum flissuðu bræðurnir. 

Margir eru þeirra skoðunar að ekki sé rétt að loka svo unga drengi inni bak við lás og slá hugsanlega fyrir lífstíð. Bent hefur verið á að þrátt fyrir viðurstyggilegt athæfi sitt séu bræðurnir einnig fórnarlömb bágra þjóðfélagsaðstæðna sinna. 

„Ég samhryggist drengjunum sem ráðist var á og fjölskyldum þeirra. Ég  kenni foreldrum bræðranna tveggja um hvernig fór sem og lögreglunni og  sveitarfélaginu. Allir þessir aðilar hefðu átt að grípa inn í miklu fyrr,“  er haft eftir nágranna bræðranna sem sjálfur mátti þola árásir drengjanna tveggja.

Samkvæmt því sem fram hefur komið í breskum fjölmiðlum er ljóst að foreldrar bræðranna hafa brugðist hlutverki sínu sem uppalendur. Faðir þeirra er virkur alkóhólisti og móðirin eiturlyfjasjúklingur, en alls eiga þeir fimm systkini. Bræðurnir hafa ógnað og ónáðað alla íbúana í því niðurnídda hverfi sem þeir búa í og nágranar hverfisins óttast þá. Þannig hótuðu bræðurnir nágrönum sínum, kveiktu í bílum þeirra, brutu rúður í húsum þeirra og helltu rusli inn í garða þeirra, kveiktu í brúðu sem lítil stúlka átti að henni sjáandi og köstuðu steinum í strætisvagna.  Móðir þeirra mun ekkert hafa gert til þess að hafa stjórn á þeim, þvert á móti. Því hún setti upp skilti á húsi fjölskyldunnar með áletruninni: „Gætið ykkur á krökkunum.“

Samkvæmt heimildum breska blaða var lögreglan margsinnis kölluð út vegna bræðranna tveggja og að lokum voru þeir fjarlægðir af heimilinu og settir í fóstur. 

Rætt er um hvort yfirvöld hafi nóg að gert í máli bræðranna og það helgast ekki síst af því að stuttu áður en þeir réðust á jafnaldra sína tvo í apríl sl. höfðu þeir ráðist á annan ungan dreng. Í því tilfelli var lögreglan kölluð til en hún gerði ekkert úr málinu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert