Þingmaður áminntur fyrir að kalla Obama lygara

Fulltrúadeild Bandaríkjaþings samþykkti í gærkvöldi með 240 atkvæðum gegn 179 að áminna Joe Wilson, þingmann Repúblikanaflokksins í Suður-Karólínu, formlega fyrir að gera hróp að Barack Obama, Bandaríkjaforseta, og kalla hann lygara þegar forsetinn ávarpaði Bandaríkjaþing í síðustu viku.

Demókratar í fulltrúadeildinni fordæmdu að Wilson skyldi neita að biðja Bandaríkjaþing afsökunar með formlegum hætti á að hafa brotið þinghefðir og siðareglur. 

Repúblikanar sögðu hins vegar, að umræða um málið og atkvæðagreiðsla væri marklaus og nær væri að þingið verði tíma sínum til að fjalla um mikilvæg málefni, svo sem tillögur forsetans um heilbrigðistryggingar og stríðið í Afganistan.  Sjö þingmenn repúblikana greiddu þó atkvæði með tillögunni um vítur á Wilson og sögðust telja að hann hefði átt að biðja félaga sína á þingi afsökunar. 12 demókratar greiddu hins vegar atkvæði á móti tillögunni.

Þingmaðurinn greip fram í fyrir Obama þegar forsetinn lýsti því yfir í ræðunni, að ólöglegir innflytjendur myndu ekki njóta verndar samkvæmt tillögum ríkisstjórnarinnar um breytingar á heilbrigðistryggingakerfinu.

Joe Wilson.
Joe Wilson. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert