Munaður í norsku fangelsi

Ljósmynd af vef norska fangelsisins Halden.
Ljósmynd af vef norska fangelsisins Halden. Ljósmynd/haldenfengsel.no

Annað stærsta fangelsi Noregs var opnað í síðasta mánuði en það var um tíu ár í byggingu. Fangelsið er töluvert frábrugðið öðrum og má þar finna hljóðver, hlaupabraut og tveggja herbergja íbúðarhús þar sem fjölskyldur fanga gista komi þær í heimsókn.

Fangelsið sem nefnist Halden stendur á um þrjátíu hektara lóð í suðaustur Noregi. Fjallað er um Halden á vefsvæði bandaríska tímaritsins Times og m.a. borið saman við fangelsi í Bandaríkjunum. „Ólíkt því sem gerist í bandarískum fangelsum er loftið ekki þrungið lykt af svita og þvagi. Þess í stað leggur angan appelsínufrauðíss úr tilraunaeldhúsi þar sem haldið er matreiðslunámskeið fyrir fanga.“

Haft er eftir fangelsisstjóranum, Ara Hoidal, að í norska fangelsiskerfinu sé áhersla lögð á mannréttindi og virðingu. „Okkar markmið er að byggja fangana upp, og veita þeim sjálftraust með menntun og vinnu. Þannig yfirgefa þeir fangelsið betri menn.“

Í fangelsinu eru rými fyrir 252 fanga. Meðal þeirra eru fíkninefnasalar, nauðgarar og morðingjar. Að því er segir í grein Times virðist norska fyrirmyndin virka. „Innan tveggja ára eftir afplánun eru 20% norskra fanga á ný dæmdir til fangelsisvistar. Þegar litið er til Bretlands og Bandaríkjanna hækkar prósentan upp í fimmtíu til sextíu prósent.“

Auk þess sem fangar í Halden njóta ýmissa þæginda var leitast eftir því við að útlitið yrði sem ólíkast fjandsamlegri stofnun. Þá líkjast fangaklefarnir frekar herbergi á stúdentagörðum. Í hverjum er flatskjár og lítill ísskápur. Gluggar eru stórir til að hleypa birtu inn og eldhús og setustofa er á hverja tíu til tólf klefa.

Vefur fangelsisins

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert