Léttir að upplýsa um barnamorð

Verjandi franskrar konu sem játað hefur að hafa á 20 árum myrt átta nýfædd börn sín segir það sé mikill léttir fyrir hana, að upp komst um málið. Hún þurfi þá ekki að hafa það á samviskunni lengur, að leyna barnamorðunum.

Konan, Dominique Cottrez, sem er 45 ára gömul á tvö uppkomin börn. Hún ber við að hafa leynt morðunum fyrir manni sínum. Hún hefði ekki viljað eignast fleiri börn og ekki viljað leita til læknis til að fá getnaðarvarnir. Hún er feitlagin og sögð mjög óframfærin. Verjandi hennar segir konuna örþreytta og niðurbrotna eftir yfirheyrslur lögreglu undanfarna daga.

Cottrez mun á næstunni gangast undir ítarlega sálfræðirannsókn og -próf til að ganga úr skugga um, að hún sé ábyrg gjörða sinna. Verjandinn segir ákæruvaldið hafa farið fullfljótt af stað með yfirlýsingar þess efnis, að hún væri sakhæf.

Verjandinn hrósaði einnig konunni fyrir að vera samvinnufús við rannsókn málsins, hún hafi m.a. bent á það undir eins hvar fleiri lík væri að finna, en lögregla hafði þá aðeins fundið tvö.

Cottrez á yfir höfði sér lífstíðarfangelsi sé hún sakhæf.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert