Lést á útfarardegi foreldranna

Þriggja vikna gömul áströlsk stúlka lést í morgun á útfarardegi foreldra sinna. Litla stúlkan fæddist 12 vikum fyrir tímann og foreldrar hennar höfðu vitjað hennar á sjúkrahús tvisvar á dag frá því hún fæddist. Foreldrarnir létu hins vegar lífið í bílslysi um síðustu helgi.

Málið hefur vakið mikla umræðu í Ástralíu. Litla stúlkan hét Lucy Schollbach og þurfti að vera á gjörgæsludeild eftir fæðinguna. Foreldrar hennar, Leah og Justin, létu lífið þegar þau voru að aka heim til sín frá sjúkrahúsinu í Sydney en bíll þeirra lenti á ljósastaur.

Ættingjar litlu stúlkunnar lýstu vilja til að taka hana að sér. Búist var við að Lucy þyrfti að dvelja á sjúkrahúsi fram í nóvember en í morgun versnaði heilsa hennar skyndilega og hún lést.  Er dauði hennar rakinn til þess hve hún fæddist langt fyrir tímann.  

Breska sjónvarpsstöðin Sky hefur eftir Indiu Bent, vini fjölskyldunnar, að þetta hafi verið erfiður dagur. „Hún lést í morgun, ég held að hún hafi viljað vera hjá mömmu sinni og pabba," sagði hún.  

Frétt Sky

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert