Björgunarafrekið sameinaði þjóðina

Sebastian Pinera, forseti Síle, segir að björgunarafrekið hafi breytt sílesku þjóðinni, en í nótt var síðasti námumaðurinn af 33 dreginn upp á yfirborðið. Þá voru þeir búnir að dúsa í prísundinni í 69 daga.

Forsetinn segir að atburðurinn hafi sameinað þjóðina. Hún hafi aldrei verið sterkari og meira virði í augum heimsbyggðarinnar.

Gríðarleg fagnaðarlæti brutust út þegar hinn 54 ára gamli Luiz Urzua var dreginn upp á yfirborðið, síðastur allra.

Það tók 22 klukkustundir að sækja alla mennina, sem voru dregnir upp þrönga holu í mjóu hylki. Þeir eru nú á sjúkrahúsi þar sem þeir munu gangast undir rannsóknir, að því er breska útvarpið skýrir frá.

Þeir eru furðu brattir eftir þrekraunina. Tannsýking hrjáir suma og þá glíma aðrir við vandamál sem tengjast því að hafa búið í myrkri neðanjarðar í rúma tvo mánuði. Einn hefur greinst með lungnabólgu en hann er ekki sagður vera alvarlega veikur.

Jaime Manalich, heilbrigðisráðherra Síle, segir að allir mennirnir séu í betra ásigkomulagi heldur en þorðu að vona. Enginn hafi lifað það af að vera fastur neðanjarðar í jafn langan tíma og mennirnir.

Sebastian Pinera, forseti Síle, ræðir hér við námumanninn Luis Urzua …
Sebastian Pinera, forseti Síle, ræðir hér við námumanninn Luis Urzua sem var síðastur upp úr námunni. Reuters
Landsmenn fögnuðu björgunarafrekinu ákaft.
Landsmenn fögnuðu björgunarafrekinu ákaft. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert