Málmþreyta í vél Southwest

Farþegavél Southwest Airlines af gerðinni Boeing 737 hefur sig til …
Farþegavél Southwest Airlines af gerðinni Boeing 737 hefur sig til flugs. Reuters

Vísbendingar um málmþreytu hafa komið í ljós við rannsókn á Boeing 737 vél Southwest Airlines, sem komst í fréttirnar þegar gat kom á hana í miðju flugi.

Loftþrýstingur lækkaði skyndilega í vélinni þegar um meterslöng rifa opnaðist á vélinni, sem var að fljúga frá Phoenix til Sacramento. Flugstjórinn neyddist til að lækka flugið í skyndingu og tókst honum að nauðlenda vélinni á herflugvelli í Arizona.

118 farþegar voru um borð í vélinni, sem er 15 ára gömul og ein sú elsta í flugflota Southwest.

Rannsakendur segja að gatið hafi myndast þar sem tvö ytri þil hafi verið fest saman. Þar fundust merki um málmþreytu, sem er slit eða bilun í málmi vegna stöðugrar áreynslu.

Soutwest Airlines aflýsti um 300 flugferðum í dag og kyrrsetti 79 flugvélar á meðan rannsókn færi fram.

Flugfreyja hlaut minniháttar áverka þegar atvikið varð, en enginn slasaðist alvarlega.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert