Viðeigandi útför bin Ladens

Barack Obama.
Barack Obama. Reuters

Barack Obama, Bandaríkjaforseti, segir að hans helsta áhyggja í aðdraganda árásarinnar á heimili Osama bin Laden hafi verið yfir því hvort hann gæti tryggt öryggi árásarsveitarinnar, sama hverjar aðstæðurnar yrðu í Abbottabad.

Þetta kom fram í viðtali Steve Kroft, fréttamanns 60 mínútna við forsetann, sem sýnt verður vestra á sunnudag.

Kroft spurði Obama hvað hafi verið erfiðast við ákvörðunina um að ráðast á heimili bin Ladens. Svaraði forsetinn þannig: „Mín helsta áhyggja var: Ef ég sendi þá þangað inn, get ég komið þeim út? Stór hluti þeirrar umræðu sem átti sér stað þegar við skipulögðum árásina snerist um það hvernig gætum tryggt aðstoð við árásarsveitina.“

Í viðtalinu sagði Obama einnig að það að sökkva líki bin Ladens í hafið hafi verið virðulegt og viðeigandi í samanburði við það hvernig fólkið lést þann 11. september 2001, í árásinni sem fyrrum leiðtogi al-Qaeda skipulagði.

„Í sannleika sagt, þá vönduðum við okkur meira við þetta en þegar bin Laden drap þrjú þúsund manns, augljóslega. Hann skeytti ekki um meðhöndlun þeirra og hvernig þau voru vanhelguð. En það gerir okkur frábrugðin þeim. Og ég held að við höfum gert þetta á viðeigandi hátt,“ sagði Obama.

Forsetinn var spurður út í það hvort hann hefði séð myndirnar af líki bin Ladens. „Já,“ sagði hann. „Hver voru viðbrögðin þegar þú sást þær?“ spurði Kroft þá. „Þetta var hann“.

Aðspurður hvers vegna þær hefðu ekki verið birtar sagði Obama: „Veistu, við ræddum það innbyrðis. Hafðu það í huga að við vorum gjörsamlega viss um að þetta væri hann. Við höfum gert DNA-rannsóknir. Svo það er enginn efi um að við drápum Osama bin Laden. Það er mikilvægt fyrir okkur að grafískar myndir af einhverjum sem var skotinn í höfuðið dreifist ekki um og hvetji undir meira ofbeldi. Verði notaðar sem áróður. Veistu, þannig erum við ekki, við montum okkur ekki af slíkum hlutum eins og um verðlaun sé að ræða.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert