Breivik áfram í einangrun

Norski hryðjuverkamaðurinn Anders Behring Breivik verður í gæsluvarðhaldi í fjórar vikur til viðbótar. Er honum haldið í einangrun en Breivik hafði óskað eftir því að losna úr einangrun.

Dómurinn var kveðinn upp í morgun fyrir luktum dyrum, samkvæmt frétt Aftenposten.

Á milli 500 og 600 aðstandendur ungmennanna, sem létust í Utøya hinn 22. júlí, koma saman í eyjunni í dag og minnast hinna látnu.

69 ungmenni létust í eyjunni.

Á staðnum verða fulltrúar lögreglu, sem munu veita aðstandendum upplýsingar um hvar ástvinir þeirra fundust látnir. Aðstandendur allflestra ungmennanna hafa tilkynnt komu sína.

Farið var með Breivik út í eyjuna um síðustu helgi og segir Pål-Fredrik Kraby, talsmaður lögreglunnar, að Breivik hefði verið yfirvegaður, samvinnuþýður og greint í smáatriðum frá því hvernig hann hefði framið ódæðið. Þá hefði hann ekki sýnt nein merki iðrunar. Kraby lagði áherslu á að nauðsynlegt væri fyrir lögregluna við rannsókn málsins að fá sem gleggstar og nákvæmastar upplýsingar um það hvernig Breivik hefði staðið að málum.

Fram kom í máli Krabys á blaðamannafundi fyrr í vikunni að mikilvægar upplýsingar hefðu fengist frá Breivik við yfirheyrslurnar í  Utøya til viðbótar við það sem áður hefði legið fyrir.

Verjandi Breiviks, Geir Lippestad, sagði í samtali við norska ríkisútvarpið NRK í vikunni að skjólstæðingur hans hefði margsinnis íhugað að hætta við að fremja morðin í eynni á leiðinni þangað. Þá hafi hann viðurkennt fyrir Lippestad á laugardagskvöldið að það sem hann gerði hafi verið hræðilegt. Hins vegar væri hann fastur í því að það hafi verið nauðsynlegt að fremja morðin. Hann yrði að hefja stríðið sem hann teldi sig vera í.

Lippestad sagði Breivik ekki muna eftir öllum morðunum heldur aðeins einu og einu. Hann myndi hins vegar eftir því að hafa gengið fram á hópa fólks. Þá hafi hann reynt að minnsta kosti tíu sinnum að hringja í lögregluna og tvisvar náð sambandi. Í fyrra skiptið hafi það sennilega verið um 20 mínútum áður en lögreglan tók hann að lokum höndum.

Þá kom fram í máli Lippestads að Breivik hafi ekki búist við því að fá eins mikinn tíma til þess að fremja ódæðið og raunin varð. Þegar hann hafi verið byrjaður á því hafi hann alfarið hætt að velta því fyrir sér að hætta við það.


Ættingjar ungmennanna sem létust í árás Breivik fóru út í …
Ættingjar ungmennanna sem létust í árás Breivik fóru út í eyjuna í dag Reuters
SCANPIX NORWAY
FABRIZIO BENSCH
Lögmaður Breivik, Geir Lippestad
Lögmaður Breivik, Geir Lippestad SCANPIX NORWAY
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert