Ólétt í fangelsi í Bólivíu

Cochabamba í Brasilíu.
Cochabamba í Brasilíu.

Norsk 25 ára gömul kona, sem afplánar tæplega 11 ára fangelsisdóm í Bólivíu fyrir fíkniefnasmygl, á von á barni. Tvær aðrar norskar stúlkur voru einnig dæmdar fyrir fíkniefnasmygl í Bólivíu en þeim hefur báðum tekist að flýja úr landi.

Madelaine Rodriguez segir við blaðið Se og Hør í Noregi, að hún hlakki til þess að barnið komi í heiminn. Hún segir að faðirinn heiti Brian og sé rappari í  Cochabamba þar sem Madeleine afplánar fangelsisdóminn.

„Brian og ég ætlum að gifta okkur, annað hvort áður en barnið fæðist eða í byrjun næsta árs," segir hún við blaðið.

Fyrir á hún 6 ára gamla dóttur, sem dvaldi með móður sinni í fangelsinu fyrst eftir norsku konurnar þrjár voru handteknar árið 2008, grunaðar um að hafa ætlað að smygla 22 kílóum af kókaíni frá Bólivíu til Noregs. 

Hinar konurnar tvær eru báðar á bak og burt. Önnur þeirra, Christina Øygarden, var látin laus gegn tryggingu í fyrra. Vegabréfið var tekið af henni í fangelsinu en henni tókst að fá norska sendiráðið í La Paz til að gefa út bráðabirgðavegabréf handa sér og komast úr landi.

Hin konan, Stina Brendemo Hagen, 21 árs, var einnig látin laus í sumar gegn jafnvirði 7 milljóna króna tryggingar. Einnig var það skilyrði sett, að Stina færi ekki frá Cochabamba og kæmi reglulega í fangelsið og léti vita af sér. Hún mætti hins vegar ekki á tilsettum tíma í lok ágúst og er nú eftirlýst um alla Suður-Ameríku.

Norska blaðið VG segist hafa upplýsingar um að Stina hafi komið í norska sendiráðið í Brasilíu í byrjun september ásamt móður sinni og 11 ára gamalli dóttur, sem hún eignaðist í fangelsinu í Bólivíu. Þar óskaði hún eftir því að gefið yrði út bráðabirgðavegabréf fyrir sig en því var hafnað.

Frétt Aftenposten

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert