Myrti þrjá og særði 75

Frá Saint-Lambert torgi í miðborg Liège í Belgíu
Frá Saint-Lambert torgi í miðborg Liège í Belgíu Reuters

Þrír létust í árás vopnaðs manns á Saint-Lambert torgi í miðborg Liège í Belgíu í hádeginu. Árásarmaðurinn framdi sjálfsvíg eftir að hafa skotið á gangandi vegfarendur á torginu og er talið að 75 hafi særst í árásinni.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu var ekki um hryðjuverk að ræða og tengist ekki réttarhöldum sem fram fóru í dómshúsi borgarinnar sem er við torgið. Ekki er vitað um ástæður árásarinnar en unnið er að rannsókn málsins.

Árásarmaðurinn hét Nordine Amrani. Hann var m.a. dæmdur til 5 ára fangelsisvistar árið 2008 fyrir vopnalagabrot.  Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu framdi Amrani sjálfsvíg eftir að hafa skotið á fólk á torginu en fjöldi fólks var á torginu þar sem dómshús borgarinnar er til húsa en vinsæll jólamarkaður er skammt frá torginu.

Samkvæmt upplýsingum frá saksóknara, Daniele Reynders, lést fimmtán ára unglingur í árásinni en 17 ára piltur og 75 ára gömul kona létust af sárum sínum á sjúkrahúsi. 

Innanríkisráðherra Belgíu, Joëlle Milquet, yfirgaf fund hjá Evrópusambandinu með hraði og hélt strax til borgarinnar þegar fréttist af árásinni og eins er forsætisráðherra landsins, Elio Di Rupo, kominn til borgarinnar.

Meðal þeirra sem eru lífshættulega slasaðir er átján mánaða gamall drengur en að minnsta kosti sex aðrir eru í lífshættu.

Mikil skelfing braust út þegar árásarmaðurinn hóf að skjóta á fólk og eru margir enn í áfalli.

Blaðamaðurinn Nicolas Gilenne sagði í samtali við AFP fréttastofuna að hann hafi verið nýkominn út úr dómshúsinu þegar árásin hófst. „Ég sá mann veifa vopni og kasta einhverju að strætóskýlinu. Ég heyrði sprengingu. Hann snéri sér við og tók eitthvað annað upp, dró út pinnann. Ég byrjaði að hlaupa. Hann var einn og virtist vera í góðu jafnvægi.“

„Hann vildi særa eins marga og hann gat. Ég heyrði fjórar sprengingar og skot í um það bil tíu sekúndur.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert