„Vaxandi ógn við mannkynið“

Sómalskar konur með AK-47 riffla. Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Sómalskar konur með AK-47 riffla. Myndin tengist fréttinni ekki beint. AP

Frakkar, Bretar, Þjóðverjar og Svíar báðu í dag Sameinuðu þjóðirnar að flýta fyrir því að samið yrði um takmarkanir á sölu vopna í heiminum. Í dag hefst ráðstefna í New York á vegum SÞ þar sem ræða á hugsanleg drög að slíku samkomulagi.

Í sameiginlegri yfirlýsingu frá þjóðunum fjórum segir að nauðsyn sé fyrir ríkisstjórnir að hefjast þegar handa: „Á hverju ári þjást milljónir manna vegna beinna og óbeinna afleiðinga af litlu regluverki og ólöglegri sölu vopna.“ Jafnframt sagði í yfirlýsingunni að vopnasala væri „vaxandi ógn við mannkynið“, og að þessar fjórar þjóðir bæru sérstaka ábyrgð þar sem þær væru helstu útflytjendur vopna í Evrópu.

Í tillögum þjóðanna felst að samkomulagið yrði bindandi fyrir allar þjóðir, en að hver þjóð fyrir sig ætti að sjá um að framfylgja að því yrði fylgt. Þá ætti samkomulagið að ná yfir allar gerðir hefðbundinna vopna, þar með talið skammbyssur og riffla, og allar gerðir skotfæra.

Talið er að andstaða við tillögurnar muni koma úr ýmsum áttum. Rússland, Kína og Íran eru t.d. talin líkleg til þess að andmæla slíku samkomulagi. Þá munu Bandaríkin vilja halda skotfærum utan við slíkt samkomulag. Einnig vilja þjóðir, sem flytja inn mikið af vopnum eins og t.d. Indland, Pakistan, Japan og Suður-Kórea, ekki setja takmarkanir á það hvernig þær vopna eigin herafla.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert