Franska þingið samþykkti fjármálasáttmálann

Francois Hollande, forseti Frakklands.
Francois Hollande, forseti Frakklands. AFP

Franska þingið samþykkti í dag fjármálasáttmála Evrópusambandsins sem ætlað er að leika lykilhlutverk í að leysa úr efnahagserfiðleikum evrusvæðisins. Samtals greiddu 477 þingmenn atkvæði með sáttmálanum en 70 á móti. 21 þingmaður sat hins vegar hjá og níu kusu að taka ekki þátt í atkvæðagreiðslunni.

Ríkisstjórn Francois Hollande, forseta Frakklands, hafði þegar lýst yfir stuðningi við sáttmálann þrátt fyrir mikla andstöðu við hann á vinstrivæng franskra stjórnmála. Fyrir vikið þykir það hafa styrkt stöðu forsetans að meirihluti þingmanna vinstriflokka hafi stutt samþykkt sáttmálans.

Haft er eftir Hollande í frétt AFP-fréttaveitunnar eftir atkvæðagreiðsluna að vinstrivængurinn hafi sameinast um að styðja sáttmálann og hafi því ekki þurft á atkvæðum hægrimanna að halda til þess að koma málinu í gegnum þingið. Hann væri mjög sáttur með niðurstöðuna.

Þá sagði hann ennfremur að afgerandi niðurstaða þingsins myndi stuðla að því að rödd Frakka yrði háværari í málefnum Evrópusambandsins. Sáttmálinn sjálfur myndi leiða til stöðugleika, raunverulegs aga í fjármálum og ennfremur hagvaxtar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert